Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Síðustu dagar
Já, skilaboðin héðan að vestan um aðgerðir strax hafa greinilega skilað sér hratt og vel til forsætisráðherra Nú er búið að skipa enn eina nefndina sem á að skila enn einni skýrslunni. Ég reyndar treysti fólkinu sem er í nefndinni vel til að skila af sér virkilega góðu starfi og hvet þau til að klára vinnuna bara fyrir frestinn sem forsætisráðherra gaf, því fyrr sem niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir, því fyrr getur ríkisstjórnin komið að aðgerðum til að hjálpa svæðinu. Ég hvet þau líka, líkt og Tolli félagi minn, að halda fólkinu hérna fyrir vestan vel upplýstu - og í guðanna bænum, ekki tapa ykkur í samgöngumálunum!
Annars hefur mér þótt umræðan síðustu daga hafa einkennst að vissu leiti af e-r misskilningi. Á fundinum á sunnudaginn voru viðraðar margar tillögur og ég veit ekki til þess að þær hafi snúist sérstaklega um það að flytja opinber störf út á land. Ef ég man rétt þá held ég að flestar hafi tillögurnar snúist um eflingu rannsókna og menntunar (Háskóli á Ísafjörð, já takk), samgöngubætur, nýsköpun, auðlindina hafið og fiskveiðiheimildir - umræðan sem var um flutning opinberra starfa snérist fyrst og fremst um svikin loforð stjórnmálamanna, loforð sem oft hafa snúist um flutning opinberra starfa. Ég veit heldur ekki til þess að nokkur maður hafi haldið því fram að lausnin á vanda landsbyggðarinnar felist í því eingöngu að fjölga opinberum störfum, þau eru aðeins brot af jöfunni.
Ég viðurkenni að mér brá aðeins við þegar ég heyrði forsætisráðherra vorn lýsa því mjög fjálglega að samgöngur væru ekki orsök vanda Vestfirðinga. En þegar ég fór að velta þessu fyrir mér aðeins betur þá áttaði ég mig á því að það er í raun alveg rétt hjá honum, þó e.t.v. ekki á sama hátt og hann meinti það. Hluti vanda byggðanna fyrir vestan tengist vissulega samgöngum. Hvernig stendur á því að þrátt fyrir ódýrara húsnæði og stöðugra vinnuafl hér þá er ódýrara fyrir fyrirtæki að starfa í Reykjavík eða annars staðar á landinu? Jú, það er dýrara að flytja vörur til og frá Vestfjörðum en annarra landshluta. Af hverju? Jú, það eru svo lélegir og erfiðir vegir og margar heiðar. Ok, en það eru alveg jafn margar heiðar austur og norður, þannig að sú röksemd er ekki alveg að virka á mig. Meiri olíukostnaður? Já, en olíuskostnaðurinn er ekki nema brot af rekstrarkostnaði flutningabíls. Ekki nóg með að þau þurfi að borga hærri flutningskostnað en fyrirtæki á öðrum landshlutum, heldur þurfa þau að flytja allt sem þau senda frá sér fyrst til Reykjavíkur, því það er ekki lengur flutt beint af höfninni héðan af svæðinu. Þetta er tilkomið vegna ákvarðanna flutningsfyrirtækjanna, sem jafnframt lögðu af strandsiglingar og er því allt flutt með flutningabílum á landi - langar vegalengdir, misgóðir vegir, þrjár heiðar og dýr olía. En það er alveg rétt sem Geir H sagði, samgöngumálin eru ekki stærsta vandamálið.
Einn hluti vandans, eins og Ólafur Bjarni m.a. benti á í ræðu sinni á sunnudaginn, er að við höfum ekki fengið að nýta okkar auðlind á sama hátt og áður, auðlindina sem býr í hafinu.
Ekki hefur heldur verið tekið nægjanlegt tillit til sérstöðu Vestfjarða í laga- og reglugerðarsetningu. Dæmi um það eru nýju raforkulögin - en nú samkvæmt þeim hefur kostnaðurinn við dreifingu farið að vega meira og hefur það lagst alveg sérstaklega harkalega á hinar dreifðu byggðir . Til að mynda greiða íbúar í Súðavík hærra gjald fyrir raforku en við á Ísafirði, sem erum 20 km fjær, einfaldlega vegna þess að íbúafjöldinn er undir viðmiðunartölu reglugerðarinnar. Lögin taka því einfaldlega ekki jafnt á öllum íbúum landsins. Ekki nóg með að við þurfum að greiða hærra verð fyrir raforku en þeir sem búa á suðvesturhorninu, heldur virðumst við einnig búa við óstöðugara rafmagn og rafmagnsleysi sem veldur stundum miklum skaða hjá fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu.
Enn eitt sem ég gæti nefnt, en má ekki nefna, er gengi þeirrar sem ekki má nefna. En ég held að það borgi sig ekki að hætta sér út í þá umræðu ... hún sem ekki má nefna gæti fallið. Burt séð frá því er ljóst að hátt gengi hefur verið útflutningsfyrirtækjum erfitt, hvar sem er á landinu.
Annars er ég að spyrja í Drekktu betur á morgun - e-r hugmyndir um þema?
Það sem við Vestfirðingar höfum verið að fara fram á er einfaldlega að fá að sitja við sama borð og aðrir landsmenn! Eins og ég hef sagt áður þá liggur vandamálið ekki í tillöguleysi, ótal margar skýrslur og úttektir hafa verið unnar um ástandið og í þeim öllum hafa komið fram tillögur, en þessum sömu skýrslum er stungið undir stól og ekkert að gert. Þegar verið er að kalla eftir aðstoð stjórnvalda er einfaldlega verið að biðja um að unnið verði að þessum tillögum sem heimamenn hafa unnið, yfirleitt í samstarfi við stjórnvöld, eða a.m.k. að ekki verði unnið gegn þeim, og að tekið verði e-ð tillit til þeirrar sérstöðu sem svæðið hefur.