Ræða flutt á flokksþingi Framsóknarflokksins 3. mars 2007

Þingforseti, ágætu félagar.

Margir spyrja hvað sé að frétta að vestan. Svarið er einfalt: Ég flyt slæmar fréttir að vestan.

Frá því á áramótum hefur eitt fyrirtæki lýst yfir gjaldþroti, ríflega tuttugu störf farin, annað fyrirtæki tilkynnt yfirvofandi lokun, 21 sérhæfð velborguð störf hverfa af svæðinu, annað fyrirtæki fækkar starfsmönnum um tvo, fréttir voru að berast af því áðan að sérhæft fyrirtæki á Ísafirði með tvo starfsmenn var að loka. Þó nokkur stór fyrirtæki í viðbót ramba á barmi gjaldþrots og fréttir berast af því að sumir bankanna séu einfaldlega hættir að veita húsnæðislán á svæðið og því miður eru þeir oft fyrirtækjunum verri en margur annar.

Ég get haldið lengi áfram. Hafa ber í huga að í upptalningunni áðan var ég eingöngu að tala um Ísafjarðarbæ, Ísafjarðarbær sem á að heita byggðakjarni fyrir Vestfirði. Í nágranna sveitarfélögunum hafa í sumum tilfellum enn fleiri störf tapast.

Þegar ég horfi á byggðir landsins í dag þá verður mér oft hugsað til hugtaks úr sálfræði sem er Lært hjálparleysi. Landsbyggðin er einfaldlega búin að ganga í gegnum það mörg áföll að í dag á hún erfitt með að bjarga sér, því reynslan segir okkur að þó við björgum okkur úr einum aðstæðum, þá virðumst við alltaf lenda á sama stað aftur og lendum í enn einu áfallinu.

Umræðan heima síðustu vikur hefur verið hálf súrrealísk. Hlutir sem áður hafa verið nefndir í gríni er fólk farið að ræða í dauðans alvöru.

Rætt er um fjöldaflutninga frá Vestfjörðum til Reykjavíkur, líkt og gert var á Hornströndum á sínum tíma.

Rætt er um stofnun fríríkis á Vestfjörðum og jafnvel komnar fram nánari útfærslur með landamæraverslun á Borðeyri, rifist um “menntað” einveldi eða lýðræði og innganga í Evrópusambandið liggur fyrir.

Staðreyndin er því miður sú að máttarstólpar samfélaganna fyrir vestan eru farnir að riða til falls og tala um að gefast upp. Þegar svo er, þá er eitthvað að. Síðustu vikur hef ég upplifað raunverulegan ótta vegna heimilis míns og ég hef ekki verið ein að upplifa þennan ótta. Það hefur raunverulegur ótti gripið um sig í samfélaginu.

Ekki hjálpar sú umræða sem hefur verið ríkjandi í fjölmiðlum að það sem veitt er á landsbyggðina sé einhverskonar ölmusa. Soffía Vagnsdóttir forseti bæjarstjórnar? í Bolungarvík var í símaviðtali nú á dögunum við eina útvarpsstöðina þar sem hún var spurð um gjöf þjóðarinnar til okkar Vestfirðinga -

Óshlíðargöng væru gjöf þjóðarinnar til okkar Vestfirðinga. Ég veit ekki betur en að við Vestfirðingar borgum jafnháa skatta til ríkissjóðs og aðrir landsmenn. Eins er ég hrædd um að það sem við höfum verið að leggja í ríkissjóð í gegnum tíðina og enn í dag með vinnslu og útflutningi sjávarfangs sé hreint ekki lítið, þó ekki beri jafn mikið á því og áður þar sem allur útflutningur af svæðinu fer í gegnum Reykjavík.

Fyrir mér eru samgöngubætur sem þessar sjálfsagður hlutur og það á ekki að líta á þær sem einhverja ölmusu. Uppbygging vegakerfis út um landið er ekki ölmusa.

Eins er það ekki ölmusa þegar opinber störf eru sett út á land – Af hverju er það lögmál að öll opinber störf séu á höfuðborgarsvæðinu – hvenær kemur það í fréttum að starfi sé bætt við í ráðuneyti eða ríkisstofnun í Reykjavík?

Því miður virðist stundum vera svo að á Íslandi búi tvær þjóðir. Höfuðþjóðin sem býr á Höfuðborgarsvæðinu og landsþjóðin sem býr á landsbyggðinni. Er það vilji okkar að hér séu tvær þjóðir í einu landi? Er það vilji okkar að byggð leggist af í heilu landshlutunum? Hér þarf að taka ákvörðun og fylgja henni eftir með fjármagni og raunverulegum aðgerðum. Og þá meina ég raunverulegar aðgerðir. Á vera byggð á Vestfjörðum eða viljum við leggja hana af? Á yfirhöfuð að vera byggð út á landi eða viljum við leggja landið af? Við verðum að fá svör.

Kæru félagar, ég vil þó ekki eingöngu vera neikvæð og vil nýta tækifærið og fagna þeim góðu ályktunum sem hér liggja fyrir og snerta byggðamál. Eins vil ég taka það sérstaklega fram að ég er ekki að kenna einum né neinum um það ástand sem hefur skapast á landsbyggðinni, né vil ég gera lítið úr því sem þegar hefur verið gert því það hefur verið margt.

Vestfirðingar hafa oft þurft að takast á við áföll en staðan í dag er einfaldlega erfiðari en oft áður. Staðan sem upp er komin er viðfangsefni sem við verðum að hjálpast að við að takast á við. Ef þær ályktanir sem liggja frammi koma til framkvæmda þá gætu þær hugsanlega veitt raunverulega von.

Ég legg það hér með til við þingið að samþykkt verði að Framsóknarflokkurinn geri byggðamál að máli málana í þessum kosningum. Ekki línuívilnun, ekki barnabætur heldur byggðamál í víðum skilningi – þetta viðfangsefni sem liggur fyrir heima er nefnilega því miður ekkert einsdæmi á Íslandi og er ekki heldur, ef grannt er á litið, eingöngu einskorðað við landsbyggðina..

Staðan á Vestfjörðum í dag er því miður þannig að við þurfum á hjálp að halda. Við viljum búa þar áfram, þar er hreint loft, minna svifryk, stutt í náttúruna, margt við að vera, minna áreiti og gott að vera. Við viljum þó ekki ölmusu heldur einfaldlega það sem við eigum rétt á, eins og aðrir landsmenn.

Þó að ekki séu til staðar margir virkjunarkostir á Vestfjörðum þá liggja fyrir ótal tillögur sem auðvelt væri að hrinda í framkvæmd. Sú tillaga sem ég legg hvað mesta áherslu á að verði hrint af stað nú fyrir kosningar er hið svokallaða ESSI verkefni, alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar á sviði jarðkerfisfræða á Íslandi. Það er hugmynd sem vaknaði á Ísafirði, Ísfirðingar hafa lagt töluvert fjármagn í að útfæra og okkar ágæti fyrrverandi formaður lagði áherslu á að yrði staðsett á Ísafirði. Það verkefni er komið það langt á veg að hægt væri að hefja það á Ísafirði strax á næstu vikum. Þar er húsnæði til staðar, þar er nálægðin við rannsóknarefnið, þar býr ákveðin þekking. Þetta er verkefni sem myndi efla svæðið á margan hátt, hefur ótvíræð margfeldisáhrif. Það myndi skapa störf fyrir einstaklinga með framhaldsmenntun, það myndi styrkja stofnun Háskóla á Ísafirði og þetta er verkefni sem margir fyrir vestan hafa litið til með von í hjarta.

Aðrar leiðir eru að efla rannsóknir og auka aðgengi að menntun með stofnun háskóla á Ísafirði innan tveggja ára eins og var samþykkt á síðasta flokksþingi, gera okkur kleift að efla nýsköpun enn frekar, til dæmis með þeirri einföldu aðgerð að tryggja áreiðanlegar háhraðatengingar um allt land. Skattafsláttur fyrir fyrirtæki sem fjárfesta og fjölga störfum á landsbyggðinni, bættar samgöngur, samgöngur, samgöngur, jöfnun á flutningskostnaði til að fyrirtækin okkar geti keppt á samkeppnisgrundvelli, afsláttur á endurgreiðslum til LÍN fyrir námsmenn sem setjast að út á landi eftir nám, líkt og gert er á sumum Norðurlandanna, og svo auðvitað það gamla góða - fjölgun opinberra starfa.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt það og sannað að það virkar því miður ekki nema að takmörkuðu leiti að setja þúsund kalla hér og þar til að viðhalda byggð. Heldur eru nefndar sértækar aðgerðir sem eru sérsniðnar fyrir hvert svæði, auk þess sem áhersla er lögð á uppbyggingu menntunar og rannsókna í samræmi við sérstöðu hvers svæðis og já, betri samgöngur innan og á milli svæða.

Við fyrir vestan erum orðin ansi langþreytt á því að þegar byggðamál ber á góma þá eru viðbrögðin alltaf þau sömu, settir á stofn starfshópar sem skila flottum og fínum skýrslum frá sér, oftast með góðum tillögum sem síðan er stungið ofan í skúffu. Við þurfum ekki fleiri starfshópa, við þurfum ekki loforð, við þurfum ekki fleiri úttektir og skýrslur. Við vitum öll hver staðan er - Við þurfum aðgerðir.

Við Framsóknarmenn erum í stöðu til að gera eitthvað núna fyrir kosningar, en vitum ekki hver staðan verður eftir kosningar. Þess vegna skora ég á þá félaga okkar sem sitja nú á Alþingi að grípa til aðgerða með okkur nú þegar og setja fram áætlun um aðgerðir strax.

Takk fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband