Sunnudagur, 29. apríl 2007
Akureyri að morgni - Ísafjörður að kveldi
Já, síðustu dagar hafa verið svo sannarlega annasamir. Eftir vinnu á fimmtudaginn brunaði ég út á Ísafjarðarflugvöll og flaug norður til Akureyrar. Reyndar flaug ég fyrst suður til Reykjavíkur, hinkraði þar í svo sem klukkutíma ásamt Rúnari Helga og Valdimar, kennurum við Menntaskólann á Ísafirði. Þeir voru á sama flakki og ég, en við vorum öll fyrirlesarar á Ráðstefnu um íslenska þjóðfélagsfræði. Ég verð að viðurkenna að ég var orðin pinku óspennt fyrir að fara, en ég hafði fattað skömmu áður að Fossavatnsgangan var sömu helgi.
Ég gat þó ekki sleppt þessu frábæra tækifæri til að kynnast íslenskum fræðimönnum á þessu sviði og ég sá svo sannarlega ekki eftir því að hafa drifið mig norður. Þetta var mjög vel skipulagt og verð ég að óska skipuleggjendunum til hamingju með góða, fræðandi og síðast en ekki síst, stórskemmtilega ráðstefnu. Ég var pinku stressuð að tala þarna en ég held að það hafi heppnast ágætlega. Ég talaði sum sé í fyrsta hollinu á föstudeginum og gat því notið þess að slaka á það sem eftir var ráðstefnunnar. Á föstudagskvöldinu skelltum við okkur á Strikið að borða og síðan að dansa á Rúnari Þór á Vélsmiðjunni. Þar var Rúnar að taka gömlu góðu slagarana og ég held að það sé óhætt að segja að þetta hafi verið mjög góð skemmtun.
Ég vaknaði nokkuð hress á laugardagsmorguninn, henti draslinu aftur í tösku og brunaði upp í Sólborg, hús Háskólans á Akureyri þar sem ég náði fyrsta fyrirlestra hollinu þann daginn áður en ég fór á flugvöllinn. Ég flaug suður eins og áður en flogið var vestur - beið aðeins lengur á flugvellinum í þetta skiptið, en skemmti mér vel - enda komin smá tilhlökkun fyrir kvöldinu Flugferðin gekk vel, enda með afbrigðum frábært veður, alveg sérstaklega á Ísafirði
Ég fór beint af flugvellinum í íþróttahúsið á Ísafirði þar sem verðlaunaafhending Fossavatnsgöngunar var í fullum gangi. Það var áberandi í húsinu gríðarleg ánægja með mótið og skipulag þess og ekki spillti veðrið fyrir Þegar verðlaunaafhendingunni lauk skaust ég heim til að skipta um föt fyrir kvöldið. Um kvöldið var þessi líka góði matur og skemmtun í íþróttahúsinu í tengslum við gönguna. Þarna voru allir kátir og var mikið sungið og skálað. Þaðan hélt hópurinn niður á Langa Manga sem fylltist ansi fljótt. Þar sem allir voru í stuði til að dansa þá var í framhaldi haldið á Krúsina þar sem var dansað fram á morgun. Að lokum var haldið heim á leið og kærkominn svefn tók við.
Dagurinn í dag hefur ekki verið mikið rólegri - vaknaði í góða veðrið í morgun og rölti í Tónlistarskólann - Restin af deginum fór meir og minna í það að þrífa bílinn - enda átti hann greyið skilið að fá vorhreingerningu
Vikan er framundan og spennandi tímar einnig. Markmið vikunnar er að taka til í herberginu eftir sprengjuárás sem það varð fyrir á fimmtudaginn og aftur í gær ...
Meira síðar.
Athugasemdir
Takk fyrir síðast :)
Hrefna Katrín Guðmundsdóttir, 1.5.2007 kl. 12:24
Takk sömuleiðis!
Albertína Friðbjörg, 1.5.2007 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.