Miðvikudagur, 20. júní 2007
Hesteyri og þursabit
Eftir mikinn valkvíða á milli þess að fara á tónleika með Erlingi Blöndal Bengtsyni eða á Konukaffi á Hótelinu þá einfaldaðist valið mikið þegar þriðji valmöguleikinn bættist við seinni partinn í gær, skreppferð á Hesteyri, hver stenst slíkt boð? Ég ákvað s.s. að slaufa bæði tónleikum og kaffi og skellti mér með pabba og fleirum norður á Hesteyri, í þessu líka fína veðri.
Það er alltaf jafn yndislegt að koma norður, ég fyllist alltaf krafti og lífsgleði, eða kannski heldur skilningi. Við stoppuðum stutt, en tókum með okkur "puttaferðalanga" á leiðinni heim, göngufólk sem verður að segjast vera heppið að hafa rekist á okkur þar sem þau höfðu ekki gengið frá heimferð áður en þau lögðu af stað, eða þ.e. fengu rangar upplýsingar varðandi fjölda ferða o.s.frv. - hvað um það, þau voru hress og fengu far yfir á Ísafjörð. Þar sem við Albert frændi vorum ekki í að draga rör eða annað þvíumlíkt heldur einfaldlega að slæpast um þá skemmtum við okkur konunglega með myndavélina hans pabba. Þið getið skoðað myndir hér. Ég þurfti að skipta um myndageymslu þar sem að fotki var orðið fullt. Ég hins vegar komst að því að Facebook-ið mitt býður upp á ótakmarkaða myndavistun þannig að það er hið besta mál
Hvað um það, frábær ferð á Hesteyri eins og sjá má á myndunum. Vinnudagurinn í dag var hins vegar langur og strangur, enda er mér langt frá því að leiðast í vinnunni ... Eftir vinnu skrapp ég í mat til mömmu og pabba og fór svo heim og ætlaði að vera rosa dugleg og slá garðinn fyrir ömmu og afa ... Ekki fór þó betur en svo að þegar ég var rúmlega hálfnuð með garðinn þá festist ég og ég meina festist!! í bakinu. Í fyrstu áleit ég þetta vera einfaldan aumingjaskap og hélt áfram að slá, en þegar það var orðið vont að stíga í fæturna þá hringdi ég í Jóhönnu frænku, baksérfræðinginn í fjölskyldunni, og spurði ráða. Þau voru einföld, fara í heita sturtu eða heitt bað, verkjatöflur og bólgueyðandi og leggjast upp í rúm. Ég þorði ekki öðru en að hlýða og ligg núna upp í rúmi með hitapoka undir bakinnu með krosslagða fingur að ég verði orðin betri á morgun ... finnst annars verst að hafa ekki getað klárað að slá og rakað ... sjáum til hvort ég hrökkvi ekki í lag á morgun
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.