Mánudagur, 23. júlí 2007
Sumarfrí sumarfrí - ástir og ævintýr
... eða að minnsta kosti e-ð þannig
Ég er núna komin á það stig að allar frumur líkamans eru farnar að þrá það að komast í sumarfrí. Það er reyndar mjög gaman í vinnunni og allt það, en stundum verður maður einfaldlega að komast í frí.
Ég fann það til að mynda mjög skýrt og greinilegt í morgun hvað það er mikilvægt að fá (þó ekki sé nema) helgarfrí. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um ævintýri og aðgerðir um helgina þá fór það svo að ég var að vinna alla helgina á Gamla gistihúsinu - aðeins að hlaupa í skarðið fyrir mömmu og pabba sem skruppu í Kópavoginn.
Mér finnst reyndar ósköp gaman og lítið mál að vinna á gistihúsinu, hitta mann og annan og allt það. En mikið fannst mér erfitt að vakna í gærmorgun kl. 6.15 til að fara og útbúa morgunmat fyrir gestina. Ekki bætti úr skák að rétt þegar ég var loksins að sofna á laugardagskvöldinu þá áttaði ég mig skyndilega á því að ég hafði gleymt brauðum morgundagsins. Þar sem þetta var síðasta hugsun fyrir svefn þá fékk ég auðvitað martröð þar sem ég hafði klúðrað morgunmatnum algerlega og valdið miklum vonbrigðum og vandræðum. Ég vaknaði upp í svitabaði og ætlaði varla að þora niður á gistihús um morguninn að ótta við að martröðin hefði verið fyrirboði. Það var auðvitað ekki svo og tókst morgunmaturinn með miklum sóma, þó ég segi sjálf frá
En hvað um það. Langþráð sumarfrí er framundan. Stefnan er sett á Hesteyri á miðvikudaginn n.k. og er ætlunin að stoppa fram á sunnudag. Reyndar er veðurspáin e-ð að stríða okkur - spáir kólnandi veðri og rigningu - en við látum það ekkert á okkur fá. Hugmyndin er að ganga e-ð um svæðið auk þess sem ég er að vonast til að hann Harry vinur minn frá Englandi sláist í för með mér
Ef þið eigið leið norður í vikunni þá endilega bankið upp á hjá mér að Mó(um) á Hesteyri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.