Mánudagur, 24. september 2007
Rútur, lest, skipsbrú og hús úr símastaurum
Já, þá er ég loksins orðin betur nettengd. Sit núna við skrifborðið mitt í skólanum og ætti að vera að lesa og undirbúa mig fyrir fundinn með Alister (prófessornum mínum) en ákvað að blogga í staðinn. Er reyndar búin að vera ágætlega dugleg í morgun, las meira að segja í hádegismatnum, þannig að ég ákvað að ég mætti taka mér smá pásu
Síðustu dagar hafa verið alveg hinir ágætustu, þó ég verði að viðurkenna að mér líður töluvert betur núna þegar ég er orðin nettengd, þó ekki sé nema í skólanum. Stefnan er tekin á að kaupa fartölvu og netið heim mjög fljótlega. Vandamálið er bara að Dell eru ekki með neinar verslanir heldur er bara hægt að panta þær online og það er 4 vikna bið eftir tölvunni sem mig langar í (já, Arna Lára það er tölva eins og þín - hún er bara flott! ). Hvað um það - ætla s.s. að kíkja í PC World eftir að ég hitti Alister og kíkja á hvað er í boði þar og ef það er e-ð flott þá kaupi ég kannski bara tölvu þar - sé bara til. Jæja, eins og áður hefur komið fram þá líkar mér alveg hreint ágætlega við konuna sem ég bý með. Hún á mann og 2 börn (25 ára og 31 árs) og býr upp í sveit þegar hún er ekki í skólanum í Aberdeen. Einfaldasta leiðin til að lýsa henni er að segja að hún sé gamall hippi. Ég fór ásamt Michaelu (kanadísk stelpa sem bjó áður með Tinu) og Lindsey (stelpan sem á íbúðina) og kærasta hennar heim til Tinu í sveitinni á laugardaginn. Tina og maðurinn hennar áttu afmæli og það var haldið vægast sagt svakalegt partý með í kringum 100 gestum. "Húsið" þeirra er vægast sagt sérstakt og er kallað The Depot. Þau búa s.s. í gamalli námu og eiginlega í nokkrum "húsum". Stærsta húsið er einfaldlega stór geymur, svipað og geymsluhúsnæði en þar inni eru tveir gamlir strætisvagnar og skipsbrú og nokkrir æðislegir gamlir bílar, tvö mótorhjól og .... já, ég gæti lengi haldið áfram. Þau eru s.s. með svefnaðstöðu í báðum rútunum og hálfgerða stofu í annari rútunni og eldhús í hinni. Svo er fullkomið upptökustúdíó í skipsbrúnni. Þetta er þó ekki allt því að þau eru með svefnherbergi fyrir utan þetta "geymsluhúsnæði" í gömlu námuskrifstofunni og svo eru þau með lestarvagn þar sem er annað eldhús og svefnherbergi. Svo fyrir ofan námuna er enn eitt húsið þar sem er svona hálfgert upptökuhúsnæði líka. Það húsnæði er búið til úr gömlum símastaurum. Jebb, trúið þið mér ekki alveg? Þetta var s.s. ævintýralegt partý. Það voru e-r sex hljómsveitir að spila og þar af ein sem er víst töluvert vinsæl hérna í Aberdeen, The Merciful Sinners (ef ég man rétt) og svo var risastór varðeldur og allir voða kátir og hressir. Á meðan það voru rokkhljómsveitir niðri í Depot-inu var Drum'n'Bass uppi í símastaurahúsinu. Já, þetta var vægast sagt frábært partý. Við Micheala fengum að sofa í annarri rútunni, á gömlum rútusætum á meðan Lindsey og kærastinn hennar tjölduðu uppi á næstu hæð hjá skipsbrúnni ásamt fleirum. Ég tók nokkrar myndir (ekki nógu margar finnst mér svona eftir á að hyggja) en þar sem að ég gleymdi snúrudæminu heima þá verða þær að bíða betri tíma. En jæja, það er farið að styttast ískyggilega í að ég eigi að hitta Alister í fyrsta skipti - heyri betur í ykkur síðar. Já, meðan ég man takk kærlega fyrir allar kveðjurnar - þær hafa haldið í mér lífinu hér á ókunnum slóðum
Athugasemdir
gaman að lesa tað sem drífur á daga tína
kveðja einar
einar svavarsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 04:35
Greinilega frábært partý.
Gunna Sigga (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.