Veturinn kominn í Aberdeen?

Brr... það var svo kalt í morgun að ég get ekki einu sinni byrjað að lýsa því. Heimamenn vilja meina að það sé óvenju kalt miðað við árstíma, hef ákveðið að taka það trúanlegt og vona að þetta sé bara óvenjulegur dagur og það muni hlýna aðeins aftur, svona fyrir veturinn. Annars var hálf kostulegt að fara út í morgun, það er ótrúlegt hvað fólk hérna klæðir sig illa, enginn með húfu eða vettlinga og margir enn í sumarjakkanum eða bara í hettupeysum, þrátt fyrir að hitastigið sé örugglega ekki mikið yfir 5°C. Ég var hins vegar með húfu og trefil og var í vetrarjakkanum, samt var mér hálfkalt Woundering

Hvað um það, nú þegar ég er búin að vera hérna í viku eru dagarnir farnir að ganga sinn vanagang. Ég vakna á morgnanna, fer upp í skóla, kveiki á tölvunni og byrja að lesa greinar og annað áhugavert efni.  Fer svo heim seinni partinn og dunda mér við hitt og þetta þar til kominn er tími til að fara að sofa.

Hmm... best að byrja á mánudeginum. Þá hitti ég Alister í fyrsta skipti og ég held að okkur eigi eftir að ganga vel að vinna saman í vetur.  Ég þarf ekki að taka neina áfanga (sem ég var voða kát með) en við vorum sammála um að ég myndi sitja fyrirlestra í tveimur áföngum, Rural Policy og The Changing Countryside, ég er þó ekki skráð í þessa áfanga og tek engin próf, heldur hef einfaldlega leyfi til að sitja fyrirlestrana sem gætu, miðað við kennsluskrána, verið mjög áhugaverðir og hjálplegir.  Á föstudaginn fer ég með öðrum bekknum í dagsferð um sveitarfélögin í nágrenninu og hitta fólk sem er að vinna að stefnumótun og þróun landsbyggðarinnar í Skotlandi, mjög áhugavert, auk þess að vera gott tækifæri til að sjá svæðið fyrir utan borgina Smile

Í gær sat ég tvo fyrirlestra.  Annar vakti einkum áhugaverðar spurningar sem ég stenst ekki freistinguna að leggja fram hér, endilega ef þið hafið e-a skoðun á þeim, kommentið í athugasemdakerfinu.

1. Hvað er dreifbýli/landsbyggð?
2. Hvernig landsbyggð viljum við?
3. Erum við of upptekin af að "selja" landsbyggðina? - Skipta peningar okkur of miklu máli?
4. Er dreifbýli endilega andstæða þéttbýlis?

Svo voru rifjaðar upp alveg ótrúlega skemmtilegar skammstafanir sem koma oft upp, einkum í tengslum við skipulagsmál - NIMBY og BANANA Veit e-r fyrir hvað þessar skammstafanir standa fyrir?

Já, þetta verður örugglega hinn ágætasti vetur. Í gær fór ég svo með Tinu og fjölskyldu hennar og vinum út að borða og svo í keilu, svaka fjör - tók talsverðum framförum í seinni umferðinni, en skorið var þó það slæmt að það verður ekki upplýst hér. Fórum svo á kránna eftir á, eins og allir gera hér og ég var svo mætt hér í skólann um hálf níu, ósköp notalegt. Í dag er það bara vinna fram á kvöld, en stefnan er sett á kóræfingu hjá Háskólakórnum kl. 19.00 - var bent á að það væri svaka fjör og ætla að prófa Wink

Jæja, vinnan kallar, meira síðar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrefna Katrín Guðmundsdóttir

Þetta hljómar nú allt vel :)

Hrefna Katrín Guðmundsdóttir, 27.9.2007 kl. 15:15

2 Smámynd: Anna Kristinsdóttir

NIMBY= Not in my backyard

Íslenska merking= það má byggja, en bara ekki í minum bakgarði

Gangi þér vel,

kveðja

´

Anna Kristinsdóttir, 5.10.2007 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband