... og alltaf nóg að gera

Ég fór í alveg hreint stórskemmtilega ferð í gær með SRD (Sustainable Rural Development) hópnum hans Alisters í gær.  Dagurinn byrjaði mjög snemma eða kl. 8.00.  Við byrjuðum á að keyra til the Bridge of Dee sem var byggð árið 1527 og fengum þar upplýsingar um vandamál þau sem Aberdeenborg stendur frammi fyrir vegna gríðarlegs umferðarálags frá Aberdeenshire þegar fólkið sem býr í sveitinni keyrir inn í borgina til að sækja vinnu og eins seinni partinn þegar þetta sama fólk er að fara út úr borginni.  Þetta vandamál á að reyna að leysa með því að byggja bypass sem mun meðal annars liggja í gegnum græna beltið sem liggur í kringum borgina og mun kosta milljónir punda að byggja.  Eftir að hafa heyrt ýmislegt áhugavert um umferðina og eins ánna Dee sem er víst ein sú hreinasta í Evrópu (mér varð nú hugsað til Íslands) þá lá leið okkar út úr borginni og til óðalseiganda eins sem er að berjast gegn bypassinu.  Ef þið hafið áhuga á að lesa meira um þetta fyrirhugaða bypass þá er þetta áhugaverð síða: http://www.aberdeengreenbelt.org/.  Það eru s.s. mjög skiptar skoðanir um þetta og alltof langt mál að fara að greina frá því hér.

Ég tók nokkrar myndir í ferðinni en e-a hluta vegna gleymdi ég vélinni alltaf í rútunni.  Hér eru þó tvær sem ég tók þegar við hittum óðalseigandann og ein sem ég tók í heimabæ Dr. Alister.

n670702259_358701_8903

n670702259_358703_9249

n670702259_358706_9840

Við fórum frá óðalinu til Banchory og svo til Kincardine O'Neill sem er bær sem þykir nokkuð merkilegt fyrir þær sakir að það er einn maður sem á allan bæinn.  Fólkið sem býr í bænum leigir einfaldlega húsin sín af honum o.s.frv.  Virkilega áhugavert, en hann þykir víst mjög góður maður, auk þess sem hann hefur lagt mikla áherslu á að bjóða upp á leigu á viðráðanlegu verði og gott húsnæði.  Fólkið vinnur svo flest í fyrirtækjum sem hann á o.s.frv.  Þaðan fórum við og skoðuðum náttúruverndarsvæði sem er upp í Hálöndunum (þó það sé í Aberdeenshire).  Þar sáum við m.a. Loch Devon og Loch Kinord og Burn o'Vat sem þykir mjög sérstakt náttúrufyrirbrigði.  Á svæðinu eru líka fornleifar frá járnöld og margt fleira merkilegt.  Virkilega fallegt svæði sem ég mæli með að þið kíkið á ef þið eigið leið til Skotlands og langar að kynnast skoskri náttúru. 

Hvað um það, þaðan fórum við svo til Kintore sem er nokkuð merkilegur bær, en þar hefur verið alveg gríðarleg uppbygging á síðustu árum ... uppbygging sem er ekki svo frábær (jájá, það má deila um það).  Í stað þess að byggja upp bæ í skoskum stíl var að keyra inn í þennan bæ eins og að keyra inn í klónaðan amerískan smábæ.  Öll húsin voru eins og allar göturnar voru eins.  Strákurinn sem ég sat við hliðina á í rútunni er einmitt frá Minnesota í Bandaríkjunum og honum leið einfaldlega eins og hann væri kominn heim.  Til að gefa ykkur e-a hugmynd um hversu slæmt þetta var þá þorði ökumaðurinn ekki að keyra inn í hverfið því hann var einfaldlega hræddur um að villast - öll húsin og allar göturnar eru eins.

Svo var haldið heim á leið á ný.  Stefnan er tekin á rólega helgi.  Er reyndar að tryllast á að vera ekki með netið heima, en það kemst vonandi í lag á næstu vikum.  Er búin að velja tölvu, en er að bíða eftir að fá breskt bankakort til að geta pantað hana.  Þangað til það kemur verð ég víst einfaldlega að sætta mig við að vera sambandslaus nema þegar ég er upp í skóla.

En jæja - bið að heilsa í bili


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spennandi ferð, ég væri sko alveg til í að vera að þvælast um skoska náttúru.

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband