Miðvikudagur, 10. október 2007
Jólin, jólin allstaðar ...
... eða svona því sem næst. Hér í Aberdeen er samt orðið augljóst að jólin eru í þarnæsta mánuði og það fer bæði í taugarnar á mér og samt ekki. Það er ekkert jólaskraut komið upp enn eða neitt svoleiðis, bara svona litlir hlutir sem minna á jólin. Til að mynda er verið að auglýsa eftir jólastarfsfólki í næstum öllum búðargluggum. Í mörgum verslunum er jólapappír og jólakort á áberandi stöðum og í þeim allra "verstu" er verið að selja jólaskraut og sérstök jólagjafaborð komin upp.
Eins og ég sagði þá fer þetta bæði í taugarnar á mér og samt ekki. Það fer alveg svakalega í taugarnar á mér þetta jólastúss og það er bara byrjun október!! Samt fer þetta ekki í taugarnar á mér að því leitinu að þetta minnir mig á hversu stutt er ég fer heim í jólafrí
Ég viðurkenni það fúslega að ég hlakka mikið til að koma heim, sakna Ísafjarðar og fólksins heima. Það er samt ekki þannig að ég sé með brjálaða heimþrá eða þannig. Mér líður virkilega vel hérna og finn hvað ég hef gott af því að vera hérna en samt hlakka ég til að koma heim aftur - skiljið þið hvað ég á við?
Síðasta helgi var alveg stórfín þar sem ég fór í mat hjá Hrönn og Flórent ásamt Dagmar og Geir, íslenska fólkið sem ég minntist á í síðasta bloggi. Skemmtilegt fólk, frábært að geta talað íslensku, svona til tilbreytingar og virkilega góður matur. Við Dagmar og Hrönn ætlum svo að skella okkur í leikhús á laugardaginn n.k., hlakka mikið til
Annars gengur allt sinn vanagang hérna í Aberdeen. Ég vakna á morgnanna, mæti í skólann, vinn að verkefninu mínu, fer heim, glápi á sjónvarp og fer að sofa. Auðvitað eru smá breytingar dag frá degi, eins og í kvöld verður lítið um sjónvarpsgláp þar sem ég er að fara á kóræfingu. Ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkur það en ég er s.s. komin í háskólakórinn og það er enginn lítill metnaður í gangi. Æfingar eru vikulega, á miðvikudagskvöldum, og þessa stundina erum við að æfa Nelson messuna eftir Hayden og verða tónleikarnir þann 11. nóvember n.k. þar sem kórinn kemur fram ásamt hljómsveit skólans og einsöngvurum. Mjög spennandi
En þetta er svona það helsta í fréttum héðan frá Aberdeen í bili, meira síðar.
Athugasemdir
Sæl og blessuð
að sjálfsögðu skil ég hvað þú átt við með að sakna Íslands þó manni líði vel. Það er mjög eðlileg og í rauninni bara góð tilfinning. Líst vel á kórinn, enginn smá metnaður að ætla að syngja Hayden messu eftir mánuð.
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 07:03
Um daginn sáum við að byrjað var að setja upp jólaljós í einni pöbbagötunni hér í Madrid. Við urðum alveg brjálæðislega hneyksluð þangað til okkur var sagt að það ætti að taka upp auglýsingu þarna og þess vegna væru ljósin uppi. Sjúkket segi ég nú bara, maður er rétt að komast í haustgírinn og ég er ekki tilbúin í að skella mér í jólagírinn strax.
Tinna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 10:58
Mér finnst svo frábært að það sé farið að bera á jólunum, kórinn byrjaður að æfa jólalög og þess háttar. Maður þarf bara að ákveða með sjálfum sér að þetta sé af hinu góða. Hvað annað á að vera til að létta manni lund og hvers vegna er svo hræðilegt að hlakka til jólanna? Ég held að það hafi allir gott af því! Sérstaklega einmana stúdentar í útlöndum - það vita allir sem hafa prófað.
Bestu kveðjur, sjáumst á aðventunni!
Sigga
Sigga G (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.