Mánudagur, 15. október 2007
Rannsóknarspurning, fartölva og helgin
Síðustu dagar hafa óneitanlega verið skemmtilegir hérna í Aberdeen.
Eins og ég hafði sagt frá áður þá er ég komin með rannsóknarspurningu sem er mjög jákvætt og fer tími minn þessa dagana mest megnis í að vinna að henni. Ég ætla, í mjög stuttu máli, að rannsaka viðhorf Íslendinga til landsbyggðarinnar; athuga hvort það sé munur á viðhorfum milli svæða og hvort það sé munur á viðhorfum þeirra sem vinna að byggðamálum annars vegar og almennings hins vegar ... hljómar spennandi ekki satt?
Í augnablikinu snýst vinnan fyrst og fremst um að lesa greinar og afla heimilda, mjög spennandi eða þannig. En stefnan er sett á að safna efni þegar ég kem heim um jólin, þannig að ég kem væntanlega til með að stoppa talsvert lengi á Íslandi, jafnvel hátt í 2 mánuði - fram í febrúar - sem ég kvarta ekki undan! Í framhaldi af því mun ég vinna úr efninu hérna í Aberdeen og vonandi klára rannsóknina í ágúst á næsta ári og útskrifast með MSc by research in Human Geography í september
Já, svo er ég búin að breyta fluginu heim um jólin - lendi á Keflavíkurflugvelli 9. desember! Jájá, ég veit - skipulagsfíknin að fara með mig - en ég stóðst ekki freistinguna þegar ég sá fram á að geta komið heim viku á undan áætlun - vika í viðbót til að baka smákökur og gera annað skemmtilegt í aðdraganda jólanna
Annars er mest lítið að frétta - jú, ég pantaði mér fartölvu á miðvikudaginn - loksins, loksins!! Gafst s.s. upp á að bíða eftir breska bankakortinu og hafði samband við Dell og spurði hvort það væri e-r leið til að ég gæti notað íslenska kreditkortið mitt. Jújú, ekkert mál og ég pantaði tölvuna
En til að gera stutta sögu langa þá kostaði hún 879 pund með sendingarkostnaði þegar ég pantaði hana á miðvikudaginn. Á fimmtudaginn fór ég aftur á heimasíðuna hjá þeim til að sýna litlu systur hvaða tölvu ég hefði verið að panta og neinei, haldið þið að verðið hafi ekki verið komið niður í 819 pund?! Ég var frekar pirruð eins og þið getið ímyndað ykkur, sérstaklega þar sem ég hafði verið í sambandi við sölumanneskju hjá Dell og hún lagði mikla áherslu á að ég myndi kaupa tölvuna þann dag því að tilboðinu sem þá var í gangi væri að ljúka. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að senda póst á Dell customer service og kvarta, bara til að vera ekki pirruð yfir þessu og verða jafnvel óánægð með tölvuna út af því að ég væri pirruð yfir þessu
Ég var svo sem ekkert að búst við að fá annað en upplýsingar um það að þeim þætti þetta voðalega leiðinlegt en það væri ekkert hægt að gera og það hefði svo sem alveg dugað mér. En mér var hins vegar svarað mjög fljótt og vel og var mér sagt að þeim þætti þetta alveg voðalega leiðinlegt og þeir væru tilbúnir til að endurgreiða mér 40 pund eða ef ég vildi hætta við pöntunina og panta aftur á lægra verðinu þá myndu þeir endurgreiða mér eins fljótt og hægt væri Ég ákvað að taka bara 40 punda tilboðinu sem þýðir að ég fékk tölvuna á 839 pund sem ég er alveg sátt við - sérstaklega þar sem hún er nú þegar á leiðinni til mín og kemur til mín í fyrramálið, sem er frábært!
Helgin var svo meiriháttar skemmtileg. Ég fór með Dagmar og Hrönn að sjá Píkusögur í Leikhúsi hans hátignar og ég verð að viðurkenna að sýningin kom mér skemmtilega á óvart - og ekki skemmdi skoski hreimurinn fyrir Eftir sýninguna fórum við á pöbbarölt og skemmtum okkur konunglega, kannski einum of vel en það er bara gaman af því svona endrum og eins! Í gær var það svo bara leti fyrir framan sjónvarpið
En jæja, þetta er nóg í bili - takk kærlega fyrir kommentin btw, alltaf gaman að fá þau og fá e-a vísbendingu um hverjir eru að lesa síðuna
- Sigga, ég get reyndar alveg tekið undir með þér með að hlakka til jólanna og njóta þess o.s.frv., fer bara örlítið í taugarnar á mér öll þessi sölumennska sem er farin að vera í kringum þetta. En ég viðurkenni það fúslega; ég hlakka svaka mikið til jólanna - næstum jafn mikið og ég hlakka til 9. des! Er ekki málið að taka aðventuna á Ísafirði með trompi?
Athugasemdir
Ég sé fram á nokkur smurbrauðshádegi á Hótelinu í desember! Sjáumst þá..
Sigga (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 11:40
Blessuð mín bara komin í jólaskap? Er ekki fullt af fallegu jólaskrauti þarna úti. Þú kannski bara kaupir eitthvað flott fyrir mig og mömmu þína
Kveðja
Svana
Svanlaug Guðnadóttir (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 19:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.