Mánudagur, 29. október 2007
Engan veginn að standa mig ...
... í þessu bloggi. Ætlaði að vera voðalega dugleg og blogga á fimmtudaginn þegar netið kæmi heim, en nei - það er saga að segja frá því.
Þar sem ég var jú mjög spennt yfir að fá netið heim ákvað ég að vera heima á fimmtudaginn og taka á móti pakkanum sem innihélt routerinn og netsíma og fleira nauðsynlegt til að tengjast netinu. En nei nei, einhvern veginn tókst mér að missa af póstmanninum (hef hann grunaðan um að hafa ekki hringt nýju fínu bjöllunni) þannig að ég fékk bara miða sem sagði að ég hefði misst af honum en gæti sótt pakkann eftir 24 klst á næsta pakka pósthús sem talsvert langt í burtu frá mér, í allt öðru hverfi takk fyrir Ég ákvað þó að hringja í pósthúsið og ath hvort ég mætti hugsanlega sækja pakkann seinna um daginn, ætlaði að reyna að koma mér e-n þangað með strætó eða e-u. Konan í símanum var voða hress og sagði jájá, ekkert mál - pakkinn bíður bara eftir þér. Jájá, ég fer í að leita að upplýsingum um strætóa sem ganga þangað en var svo heppinn að heyra í Dagmar í millitíðinni og var hún svo æðisleg að bjóðast til að skutla mér á pósthúsið
Ég var voðakát með það og við brunum á Wellington Circle þar sem pósthúsið er, með aðstoð TomTom. Þegar við finnum svo pósthúsið hleyp ég inn og hitti þar fyrir strák á aldri við mig. Hann virkar ekkert ógurlega glaður að sjá viðskiptavin en eftir nokkra bið kemur hann og talar við mig.
Ég rétti honum miðann og eftir að hafa litið á hann snýr hann sér að mér aftur og segir, sorrý, það er ekki hægt að sækja þennan pakka fyrr en á morgun. Ég sagði honum frá því að ég hefði hringt í símanúmerið á miðanum og talað við konuna sem sagði að ég mætti sækja hann núna, hvort það væri ekki e-r leið til að ég gæti fengið pakkann núna - ég væri bíllaus og ætti heima langt í burtu Hann stynur, þá það en þá verð ég að leita að honum því það er ekki búið að ganga frá pökkunum í dag. Ég fann að samviskubitið væri ekki langt undan hjá mér og bjóst við að hann þyrfti að fara e-ð lengst og vesenast til að finna pakkann
Þetta sama samviskubit hvarf þó þegar hann snéri sér að borðinu við hliðina honum og lyfti upp tveimur pökkum og fann pakkann minn þar undir, tók kannski 40 sekúndur að finna hann. Í gleði minni yfir að fá pakkann sagði ég e-ð á þessa leið: Takk kærlega fyrir, þú bjargaðir lífi mínu (ok, mjög ýkt ég veit - en vá hvað ég hlakkaði til að fá netið heim, auk þess sem gaurinn var svo fúll að ég vildi segja e-ð til að sýna mikilvægi þessa pakka fyrir mig). Þá svaraði hann: Já, en ég er nokkuð nálægt því að taka líf e-s annars í staðinn.
Ég stóð þarna orðlaus í nokkrar sekúndur áður en ég greip pakkann, þakkaði pent fyrir mig og labbaði hratt út - kom út í bíl til Dagmar og sprakk úr hlátri
Þegar ég kom heim um kvöldið, eftir að hafa farið í heimsókn ásamt Dagmar og strákunum til Hrannar og stelpnanna, kom í ljós að ég hafði ekkert þurft að vera að stressa mig á þessum blessaða pakka Af hverju? Jú, það var ekki búið að tengja netið hjá mér. Ég var voða kát þegar ég kom heim, reif routerinn og símann úr kassanum og tengdi allt eftir kúnstarinnar reglum og ekkert ljós kveiknaði þar sem það átti að kveikna. Ég prófaði símann, sem virkaði og hringdi í símafyrirtækið (BT). Eftir að hafa verið send á milli þriggja aðila, komst ég loks í samband við stelpu sem var voðalega sorrý yfir að enginn hefði haft samband við mig - en málið er s.s. að það er bilun í símstöðinni í götunni og því hefur ekki verið hægt að tengja línuna fyrir mig. Verður það gert í síðasta lagi 6. nóvember, en vonandi fyrr. Ég verð að viðurkenna að ég var frekar mikið pirruð, en gat svo sem ekki farið að skamma stelpugreyið sem var voðalega sorrý og lofaði að það yrði hringt í mig um leið og línan yrði tengd
Þannig að, ég er s.s. ekki komið með net heim - kemur vonandi í vikunni - í síðasta lagi í næstu viku ... Ég er þó a.m.k. komin með heimasíma ... en það er ekki hægt að hringja í hann fyrr en netið verður tengd, þannig að ...
En á jákvæðu nótunum þá fann ég loks íþróttabuxur sem mig líkaði við í gær og stefnan er sett á skokk í hádeginu Það er nefnilega svo frábær aðstaðan hérna að það er sturta í byggingunni minni. Þannig að planið er núna að koma sér í betra form og taka alltaf smá skokk í hádeginu, það er víst mjög fínn almenningsgarður hérna rétt fyrir ofan sem passar fínt fyrir hálftíma-klukkutíma skokk
En best að fara að læra - meira síðar.
Athugasemdir
úff, þjónustugleðin á pósthúsinu alveg að fara með menn. Minnir mig á afgreiðslukarakterinn úr little britain "computer says noooo...."!!
En það er þó allavega gott að enginn hafi látið lífið vegna þessara erindagjörða.
Edda Katrín Einarsdóttir (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.