Mánudagur, 12. nóvember 2007
Tíminn líður hratt ...
... og það ekkert lítið. Voru allir búnir að átta sig á því að nóvember er næstum hálfnaður - kominn 12. nóvember og mér sem fannst eins og nóvember væri nýhafinn. Annars er þetta svolítið afstætt - þegar ég hugsa til þess að það eru 27 dagar þangað til ég flýg aftur til Íslands þá finnst mér 27 dagar vera langt, en þegar ég hugsa til þess að það eru bara þrjár helgar og einn laugardagur þangað til þá er það ekki svo langt
Talandi um helgar þá var síðasta helgi mjög skemmtileg Dagmar og Hrönn komu heim til mín í mat á föstudagskvöldið. Ég eldaði auðvitað fyrir þær kjúklingaréttinn minn og að venju sló hann í gegn Eftir mat og afslöppun var ákveðið að kíkja aðeins á lífið í "stórborginni" - klukkan var nú kannski orðin örlítið margt, en á íslenskan mælikvarða vorum við nú ekki seint á ferðinni. Það var þó þannig að það var búið að loka langflestum stöðunum í miðbænum og við enduðum á Babylon sem er ágætur staður - en þar var auðvitað lokað kl. 3 þannig að við héldum eftir það til okkar heima. Sáttar eftir gott kvöld.
Laugardagurinn sló þó allt út því þá fór ég í matarboð til Dagmar og Geirs, hvað haldið þið að hafi verið í matinn?? Jú, SS-pylsur frá Íslandi og auðvitað remúlaði með Mikið grín og mikið gaman og ótrúlega góðar pylsur
Sunnudagurinn fór að mestu leiti í afslöppun en ég kíkti svo til Heather vinkonu minnar, en hún var að flytja inn í íbúð í Torry, sem er eitt af hverfunum hérna í Aberdeen. Reyndar er þetta eitt af "slæmu" hverfum borgarinnar, en sá hluti sem hún er í hefur gengið í gegnum mikla uppbyggingu og breytingar á síðustu árum - borgin er s.s. meðvitað að reyna að breyta upp munstrið sem hafði myndast þarna. Ég verð þó að viðurkenna að þegar ég var á leiðinni heim og sá fram á að þurfa að labba talsverðan spotta til að komast á stoppustöðina í myrkrinu þá var ég voða fegin þegar leigubíll stoppaði fyrir utan húsið sem ég var í að skila af sér farþegum og ég auðvitað greip hann og hann keyrði mig heim fyrir rétt rúm 4 pund. Verð að viðurkenna að það var alveg þess virði enda ísjökulkalt í gærkvöldi ... og reyndar í dag líka
Annars eru engar stórar fréttir af mér - er á fullu að reyna að vinna í þessari rannsókn minni sem gengur frekar hægt - er að vinna svokallað literature review sem þýðir bara lestur og meiri lestur. Talandi um lestur - er á bókasafninu - best að halda áfram að lesa
Meira síðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.