Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
11 dagar og álagið eykst
Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur stundum áfram og í þetta skiptið veldur það barasta misræmi í huga mér. Annars vegar er ég alveg svakalega kát í að það styttist stöðugt í að ég fljúgi heim til Íslands en hins vegar á ég eftir að gera svo margt, sérstaklega í skólanum, áður en ég fer heim. Ég er því bæði glöð og stressuð þegar ég skrifa þessi orð
Hvers vegna er ég þá að eyða tíma í að blogga þegar ég ætti að vera að lesa og skrifa um viðhorf? Einfalt mál - er að farast úr einbeitningarskort og hef gert allt til að halda mér frá lærdómnum. Ég tók því þá ákvörðun að klára að gera allt sem ég get gert núna, þ.á.m. að blogga, þannig að ég hafi enga afsökun á eftir til að einbeita mér ekki að lærdómnum
Hér í Aberdeen er annars lítið að frétta þar sem fyrrnefndur lærdómur tekur mest af mínum tíma. Skrapp þó í jólagjafaleiðangur með Dagmar og Hrönn á mánudaginn og keypti nokkra skemmtilega hluti til að gefa í jólagjöf. Reyndar eru stærstu fréttirnar þær að ég fékk loksins IBAN númerið fyrir skoska reikninginn minn á föstudaginn og í morgun komu langþráð pund inn á reikninginn minn Ég er búin að komast að því á þessari stuttu dvöl minni hérna að Bretar eru að drepast úr skrifræði og já, veseni. Til að mynda þetta blessaða IBAN númer...
Ég fór daginn eftir að ég kom til Aberdeen í bankann til að opna bankareikning. Jújú, ekkert sjálfsagðara. Mér var vísað á tölvu þar sem ég setti inn allar upplýsingar og svo átti innan skamms að koma í pósti debitkort og upplýsingar um reikninginn. Ég var voða kát með það, nema hvað að þetta ferl allt saman tók hvorki meira né minna en 2 mánuði og 2 bréf þar sem alltaf vantaði e-r upplýsingar. Jæja, svo kom kortið. Ég var voða kát, þangað til ég uppgötvaði að ég hafði ekkert IBAN númer og gat því ekki látið millifæra pening að heiman Ég gerði því það sem eðlilegt var að ég fór upp í banka og bað um það, enda er það alltaf hið minnsta mál að fá það í bankanum heima. En nei nei, þar sagði konan mér að þetta IBAN númer væri á yfirlitinu mínu sem ég fengi sent í pósti. Ég benti vinsamlegast á það að þar sem þetta væri jú nýtt kort þá hefði ég enn ekki fengið yfirlit, hvort það væri hægt að redda því e-n. Jú, hún pantar fyrir mig yfirlit sem átti að taka 5-10 daga að koma.
Eftir 10 daga og ekkert yfirlit í póstinum þá fór ég að skoða málið betur og hringdi í símanúmer sem var gefið upp á heimasíðu bankans sem átti að veita mér upplýsingar um IBAN númer. Þar svarar kona sem var greinilega algerlega úti að aka, því hún segir mér að hún geti ekki gefið mér IBAN númerið og ég verði að fara upp í útibúið mitt til að fá það (útibúið sem sagði mér að það gæti ekki sagt mér það, en gott og blessað). Hún sagði mér jafnframt að ég ætti eftir að virkja kortið mitt, sem ég þyrfti að láta gera í útibúinu sömuleiðis. Þá sagði hún einnig að yfirlitið hefði verið send 26. október og ætti að vera komið til mín (sem það er ekki enn og í dag er 28. nóvember).
Nú jæja, eftir að hafa fengið þessar upplýsingar fór ég upp bankann 2 dögum seinna (lærdómur að þvælast fyrir). Þar tala ég við þjónustufulltrúa og segi honum alla sólarsöguna. Hann hristi hausinn yfir þessu öllu saman og sagði að þau gætu ekki gefið mér upp IBAN númerið þar sem að útibúin hefðu ekki aðgang að þeim upplýsingum heldur þyrftu þau að fara í gegnum aðalskrifstofurnar. En þar sem ég var búin að lenda í svo miklum vandræðum þá hringdi hann í sama síma og ég hafði hringt í 2 dögum seinna og þá kom í ljós að konan sem ég hafði talað við hafði bara verið að bulla þvílíkt og málinu var reddað. Þessi þjónustufulltrúi fékk svo flýtiafgreiðslu á IBAN númerinu fyrir mig og hringdi í mig seinna um daginn með blessað númerið. Jafnframt kom í ljós að það þurfti ekkert að virkja kortið, var löngu búið að því - ekkert nema að yfirlitið hafði verið sent 26. okt var rétt hjá greyið konunni sem ég hafði talað við í símann.
Önnur saga um skrifræði og vesen er sagan af því þegar ég fór til augnlæknis í gær. Þar sem að gleraugu og linsur eru margfalt ódýrari hér en heima + að það eru 2 ár síðan ég fór síðast í augnmælingu þá ákvað ég að skella mér. Ég fór í verslun sem heitir SpecSavers og er með fínt úrval og gott verð. Ég kem inn og læt vita af mér og er vísað á biðstofu. Það var kallað á mig ca 5 mínútum seinna og ég svara fullt af spurningum um ýmis mál tengd augnheilsu minni og er svo mæld e-ð smá og gleraugun mín mæld o.s.frv. Svo er mér vísað aftur á biðstofuna og aftur 5 mínútum seinna þá er kallað á mig aftur og í þetta skiptið í raunverulegu mælinguna, sem var ekkert smá flott og ítarleg btw. Aftur er ég spurð ýmissa spurninga um augnheilsuna og ekkert nema gaman af því. Þarf aðeins meiri styrk en fyrir 2 árum en góðu fréttirnar eru að augun hafa leiðrétt sig og er núna með sama styrk á báðum augum
Jú, þetta var allt gott og blessað, en þegar ég fer að spyrja um linsur (nota alltaf linsur) þá kemur í ljós að ég þarf að fara í aðra mælingu fyrir linsurnar Ég útskýri það að ég sé nú í smá vandræðum þar sem að ég sé að fara heim 9. des. Það var þá ákveðið að bjarga málunum þannig að ég fékk linsupar til að prófa með mér heim og á að vera með þær þangað til á miðvikudaginn í næstu viku þegar ég á að mæta í linsumælingu, mjög áhugavert allt saman
Eftir að hafa sett allt á annan endann þar sem ég gat ekki verið með linsurnar til prufu í tvær vikur eins og reglurnar segja var ég spurð hvort ég hefði áhuga á að skoða gleraugu. Það hafði ég þar sem að gleraugun sem ég á eru alltof alltof veik og gera mig veika (verð sjóveik). Það var mjög vinalegur ungur drengur sem aðstoðaði mig við að velja gleraugun. Reyndar var hann stórskemmtilegur þar sem hann þekkti íslenska hreiminn og við fórum að ræða um íslenska tónlist Eftir að hafa prófað nokkur pör fann ég loksins par sem mér líkaði við, silfurlitað og fæ þau afhent á miðvikudaginn.
Gleraugu þessi kostuðu, með glerjunum, 87,5 pund eða um 11 þúsund krónur - ekki slæmt það Að auki var augnmælingin ókeypis (og hefði verið það líka þó ég hefði ekkert verslað gleraugu). Sem sagt mjög ánægjuleg augnmæling og gleraugnakaup, þrátt fyrir allt skrifræðið sem fylgdi henni
En jæja, best að hætta að röfla og fara að læra
Meira síðar.
Athugasemdir
Atkvæði þitt var ógilt, má bara velja einn sko.. ;) Þú verður að velja!
Það verður gaman að sjá þig aftur í bænum um jólin! :D
Marta, 29.11.2007 kl. 17:06
Heyrðu þarf maður að fara að gera sér ferð í gleraugnaverslunina til að skoða afgreiðslumanninn ;o)
Hrönn (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 17:29
Hrönn, kemurðu ekki bara með mér á miðvikudaginn??
Albertína Friðbjörg, 29.11.2007 kl. 18:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.