Laugardagur, 15. desember 2007
Það heyrast jólabjöllur ...
E-ð klikkaði að framhald ferðasögunnar kæmi í gær, en mér til varnar þá var ég mjög dugleg í gær - var að vinna verkefni með Önnu Guðrúnu sem við þurfum að skila af okkur í næstu viku, fór svo í alveg hreint stórfínt og skemmtilegt jólaboð á neðrihæð Vestrahússins í boði eigenda hússins. Þegar heim var komið þá fór tíminn að mestu í að reyna að hjálpa mömmu að taka aðeins til áður en sest var niður fyrir framan sjónvarpið og horft á Wallander, sem var alveg ágætur í þetta skiptið og aldrei leiðinlegt að hlusta á sænskuna
En jæja, hvert var ég komin? Já, við vorum komnar á flugvöllinn í Glasgow. Þar vorum við komnar með góðum fyrirvara eins og reglur segja til um, en enduðum á því að bíða líklega í rúman einn og hálfan tíma í "check-in" röðinni. Já, hvað skal segja? Það var ýmislegt skondið þarna í röðinni og svo í flugvélinni, en þar sem ég er hrædd um að fólk gæti þekkt sig aftur af sumum sögunum þá verðið þið einfaldlega að hringja í mig til að fá söguna í smáatriðum Í stuttu máli þá var biðin í röðinni vegna þess að það voru held ég nánast allir með yfirvigt. Ég þótti t.a.m. vera með lítinn farangur og var með 5 kg of mikið. Svo ég lýsi þessu í stikkorðum, flugvellinum og flugvélinni: Pirringur, yfirvigt, vesen, afgreiðslufólk sem á heiður skilinn, ekkert opið, vondur hamborgari, Vicky Pollard + vodki í kók + bara vodki, gamalt og hart skinkuhorn, troðningur hlaup, flugrúta.
Ævintýraleg ferð sem sagt og mikið var ég fegin þegar leigubíllinn frá BSÍ renndi í hlaðið hjá Möggu frænku
Ég hafði svo komið því þannig fyrir að ég hafði heilan dag í Reykjavík til að hitta vini og vandamenn. Fór til Halldóru Harðar og hitti þar ungan pilt sem nýlega fékk nafnið Sigurður Ernir. Þaðan skaust ég upp í Kringlu og hitti í örstutta stund Åshild og Trond sem voru nýkomin frá Ísafirði og voru að kaupa jólagjafir áður en þau fóru til Noregs seinna sama dag. Þaðan var haldið upp í Mosfellsbæ þar sem ég hitti Maríu Ögn, Kristinn Elvar, Kötlu Björt, Nótt og Uglu. Við María Ögn og Katla Björt fórum svo í bæinn aðeins að stússast, en ég fór svo aftur til Möggu og átti þar virkilega notalegt kvöld.
Á þriðjudagsmorguninn átti ég svo flug heim til Ísafjarðar. Ég með allan minn farangur tók leigubíl niður á flugvöll, en fékk sms um leið og ég steig út úr bílnum um að það væri 2 tíma seinkun á flugi til Ísafjarðar þar sem það hafði verið ófært til Vestmannaeyja og Egilstaða daginn áður. Tja, ég hefði gjarnan viljað fá þetta sms þó ekki hefði verið nema 5-10 mínútum fyrr - en svo var ekki og ég beið í rólegheitunum á flugvellinum. Þótti þetta reyndar frekar slöpp þjónusta, en svo sem lítið hægt að gera í því
Mikið var yndislegt að lenda á Ísafjarðarflugvelli! Mikið hafði ég saknað Ísafjarðar og ég fann hvernig hjartað tók kipp þegar við sáum fyrst inn í Skutulsfjörðinn og hvernig það slakaði loksins á þegar ég labbaði út úr flugvélinni. Ég var komin heim.
Meira síðar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.