Þriðjudagur, 19. ágúst 2008
Langt síðan síðast ...
... og líf mitt hefur verið vinna og ævintýri til skiptis
Það var víst á mánudag sem ég bloggaði síðast, en síðan þá hefur margt á daga mína drifið. Á þriðjudaginn var ég að vinna og leiðsegja í tengslum við skemmtiferðaskipið og fleira. Upprunalega planið hafði verið að fljúga suður seinni partinn á þriðjudeginum til að kaupa bíl sem ég hafði fundið á netinu. Það fór þó svo að ég endaði á að fljúga suður með annarri vél en áætlað var og ekki fyrr en seint um kvöldið - af hverju er einfaldlega of löng saga til að segja frá hér, en þetta var skemmtileg ferð þrátt fyrir að ég hafi verið orðin verulega lúin þegar ég komst loksins til Reykjavíkur og síðan Mosfellsbæjar þar sem ég gisti
Tók auðvitað nokkrar myndir á flugi ...
Nema hvað, ég komst s.s. suður fyrir rest, með smá millilendingu Gisti svo hjá Maríu Ögn og Kristni og morguninn eftir fórum við María Ögn og Katla Björt að kíkja á bílinn ... Endaði á að kaupa hann, Suzuki Ignis 4WD Eftir smá meira stúss í Reykjavík var stefnan svo sett aftur vestur seinni part miðvikudags, í þetta skiptið keyrandi á nýja bílnum. Bíllinn stóð sig eins og hetja, þó ég verði að viðurkenna að ég hélt hann myndi hrynja í sundur og sprengja öll dekk á leiðinni frá Bjarkalundi og inn í botn Þorskafjarðar - eigum við e-ð að ræða hvað sá vegkafli er hrikalegur??!
Tók auðvitað myndir á heimleiðinni líka
Næstu dagar fóru svo í vinnu og meiri vinnu, þ.e. þessa venjulegu vinnu og svo var ég ásamt Írisi að stússast í kringum Skógræktarþingið sem var haldið hér á helginni. Afskaplega ágætt fólk sem var þar saman komið og held bara almenn ánægja með Ísafjörð Reyndar gaman að segja frá því að amma fékk viðurkenningu á þinginu fyrir einstök störf í þágu skógræktar ... til hamingju amma
Í gær var það svo aftur Reykjavík ... bara smá kennarahittingur fyrir frumgreinanámið, bara að hittast og undirbúa önnina og svo heim aftur með seinni vélinni og afmæli hjá litla bróður um kvöldið
Sem sagt, engin leti í gangi hérna megin þessa dagana ...
En jæja, er víst enn í vinnunni og klukkan farin að ganga í kvöldmat - best að koma sér heim ...
Meira síðar.
Athugasemdir
Það er greinilega aldrei dauður tími hjá þér, alltaf nóg að gera
Til hamingju með nýja bílinn! Þú verður eiginlega að skella inn mynd af honum þar sem ég er engan veginn að átta mig á tegundinni
Kristrún (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 23:11
Flottar myndir hjá þér.
Jakob Falur Kristinsson, 20.8.2008 kl. 02:20
Hæhæ, flottar myndirnar hjá þér... og takk fyrir vinasamþykkið..kv Gunna.
Guðrún Ágústa Einarsdóttir, 20.8.2008 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.