Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 30. nóvember 2007
Mamma bjargar deginum
Fékk pakka að heiman í gær
Í honum voru tvö jólasveinadagatöl á ensku, sem ég ætla að gefa annars vegar meðleigjanda mínum og hins vegar krökkunum sem ég er með á skrifstofu.
En mamma hafði auðvitað laumað í hann karamellusúkkulaðiplötu líka sem bjargaði gærdeginum, því hvað er betra en íslenskt súkkulaði til að aðstoða við lærdóminn?
Takk mamma!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
11 dagar og álagið eykst
Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur stundum áfram og í þetta skiptið veldur það barasta misræmi í huga mér. Annars vegar er ég alveg svakalega kát í að það styttist stöðugt í að ég fljúgi heim til Íslands en hins vegar á ég eftir að gera svo margt, sérstaklega í skólanum, áður en ég fer heim. Ég er því bæði glöð og stressuð þegar ég skrifa þessi orð
Hvers vegna er ég þá að eyða tíma í að blogga þegar ég ætti að vera að lesa og skrifa um viðhorf? Einfalt mál - er að farast úr einbeitningarskort og hef gert allt til að halda mér frá lærdómnum. Ég tók því þá ákvörðun að klára að gera allt sem ég get gert núna, þ.á.m. að blogga, þannig að ég hafi enga afsökun á eftir til að einbeita mér ekki að lærdómnum
Hér í Aberdeen er annars lítið að frétta þar sem fyrrnefndur lærdómur tekur mest af mínum tíma. Skrapp þó í jólagjafaleiðangur með Dagmar og Hrönn á mánudaginn og keypti nokkra skemmtilega hluti til að gefa í jólagjöf. Reyndar eru stærstu fréttirnar þær að ég fékk loksins IBAN númerið fyrir skoska reikninginn minn á föstudaginn og í morgun komu langþráð pund inn á reikninginn minn Ég er búin að komast að því á þessari stuttu dvöl minni hérna að Bretar eru að drepast úr skrifræði og já, veseni. Til að mynda þetta blessaða IBAN númer...
Ég fór daginn eftir að ég kom til Aberdeen í bankann til að opna bankareikning. Jújú, ekkert sjálfsagðara. Mér var vísað á tölvu þar sem ég setti inn allar upplýsingar og svo átti innan skamms að koma í pósti debitkort og upplýsingar um reikninginn. Ég var voða kát með það, nema hvað að þetta ferl allt saman tók hvorki meira né minna en 2 mánuði og 2 bréf þar sem alltaf vantaði e-r upplýsingar. Jæja, svo kom kortið. Ég var voða kát, þangað til ég uppgötvaði að ég hafði ekkert IBAN númer og gat því ekki látið millifæra pening að heiman Ég gerði því það sem eðlilegt var að ég fór upp í banka og bað um það, enda er það alltaf hið minnsta mál að fá það í bankanum heima. En nei nei, þar sagði konan mér að þetta IBAN númer væri á yfirlitinu mínu sem ég fengi sent í pósti. Ég benti vinsamlegast á það að þar sem þetta væri jú nýtt kort þá hefði ég enn ekki fengið yfirlit, hvort það væri hægt að redda því e-n. Jú, hún pantar fyrir mig yfirlit sem átti að taka 5-10 daga að koma.
Eftir 10 daga og ekkert yfirlit í póstinum þá fór ég að skoða málið betur og hringdi í símanúmer sem var gefið upp á heimasíðu bankans sem átti að veita mér upplýsingar um IBAN númer. Þar svarar kona sem var greinilega algerlega úti að aka, því hún segir mér að hún geti ekki gefið mér IBAN númerið og ég verði að fara upp í útibúið mitt til að fá það (útibúið sem sagði mér að það gæti ekki sagt mér það, en gott og blessað). Hún sagði mér jafnframt að ég ætti eftir að virkja kortið mitt, sem ég þyrfti að láta gera í útibúinu sömuleiðis. Þá sagði hún einnig að yfirlitið hefði verið send 26. október og ætti að vera komið til mín (sem það er ekki enn og í dag er 28. nóvember).
Nú jæja, eftir að hafa fengið þessar upplýsingar fór ég upp bankann 2 dögum seinna (lærdómur að þvælast fyrir). Þar tala ég við þjónustufulltrúa og segi honum alla sólarsöguna. Hann hristi hausinn yfir þessu öllu saman og sagði að þau gætu ekki gefið mér upp IBAN númerið þar sem að útibúin hefðu ekki aðgang að þeim upplýsingum heldur þyrftu þau að fara í gegnum aðalskrifstofurnar. En þar sem ég var búin að lenda í svo miklum vandræðum þá hringdi hann í sama síma og ég hafði hringt í 2 dögum seinna og þá kom í ljós að konan sem ég hafði talað við hafði bara verið að bulla þvílíkt og málinu var reddað. Þessi þjónustufulltrúi fékk svo flýtiafgreiðslu á IBAN númerinu fyrir mig og hringdi í mig seinna um daginn með blessað númerið. Jafnframt kom í ljós að það þurfti ekkert að virkja kortið, var löngu búið að því - ekkert nema að yfirlitið hafði verið sent 26. okt var rétt hjá greyið konunni sem ég hafði talað við í símann.
Önnur saga um skrifræði og vesen er sagan af því þegar ég fór til augnlæknis í gær. Þar sem að gleraugu og linsur eru margfalt ódýrari hér en heima + að það eru 2 ár síðan ég fór síðast í augnmælingu þá ákvað ég að skella mér. Ég fór í verslun sem heitir SpecSavers og er með fínt úrval og gott verð. Ég kem inn og læt vita af mér og er vísað á biðstofu. Það var kallað á mig ca 5 mínútum seinna og ég svara fullt af spurningum um ýmis mál tengd augnheilsu minni og er svo mæld e-ð smá og gleraugun mín mæld o.s.frv. Svo er mér vísað aftur á biðstofuna og aftur 5 mínútum seinna þá er kallað á mig aftur og í þetta skiptið í raunverulegu mælinguna, sem var ekkert smá flott og ítarleg btw. Aftur er ég spurð ýmissa spurninga um augnheilsuna og ekkert nema gaman af því. Þarf aðeins meiri styrk en fyrir 2 árum en góðu fréttirnar eru að augun hafa leiðrétt sig og er núna með sama styrk á báðum augum
Jú, þetta var allt gott og blessað, en þegar ég fer að spyrja um linsur (nota alltaf linsur) þá kemur í ljós að ég þarf að fara í aðra mælingu fyrir linsurnar Ég útskýri það að ég sé nú í smá vandræðum þar sem að ég sé að fara heim 9. des. Það var þá ákveðið að bjarga málunum þannig að ég fékk linsupar til að prófa með mér heim og á að vera með þær þangað til á miðvikudaginn í næstu viku þegar ég á að mæta í linsumælingu, mjög áhugavert allt saman
Eftir að hafa sett allt á annan endann þar sem ég gat ekki verið með linsurnar til prufu í tvær vikur eins og reglurnar segja var ég spurð hvort ég hefði áhuga á að skoða gleraugu. Það hafði ég þar sem að gleraugun sem ég á eru alltof alltof veik og gera mig veika (verð sjóveik). Það var mjög vinalegur ungur drengur sem aðstoðaði mig við að velja gleraugun. Reyndar var hann stórskemmtilegur þar sem hann þekkti íslenska hreiminn og við fórum að ræða um íslenska tónlist Eftir að hafa prófað nokkur pör fann ég loksins par sem mér líkaði við, silfurlitað og fæ þau afhent á miðvikudaginn.
Gleraugu þessi kostuðu, með glerjunum, 87,5 pund eða um 11 þúsund krónur - ekki slæmt það Að auki var augnmælingin ókeypis (og hefði verið það líka þó ég hefði ekkert verslað gleraugu). Sem sagt mjög ánægjuleg augnmæling og gleraugnakaup, þrátt fyrir allt skrifræðið sem fylgdi henni
En jæja, best að hætta að röfla og fara að læra
Meira síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Í fréttum er þetta helst ...
- Það eru 15 dagar þangað til ég kem heim.
- Ég er að koma heim til að vera, mun aðeins fara í styttri heimsóknir til Aberdeen í vetur til að hitta prófessorinn en annars vera heima og vinna að rannsóknni minni.
- Ísafjörður er algerlega besti staður í heimi.
- Aberdeen er líka fín, en Ísafjörður betri
- Ég á eftir að sakna nýju vina minna hér heilmikið, en ég mun hitta þau reglulega í heimsóknunum mínum.
- Hlakka til að losna við þetta ljóta BT símadrasl sem hefur aðeins gert líf mitt leitt síðan ég kom hingað og er alltaf e-ð bilað.
- Hef smá áhyggjur af yfirvigt í fluginu heim
- Er búin að borða of mikið af klementínum í dag, en þær bara eru svo hrikalega góðar á þessum árstíma og ég get ekki hætt
- Langar svaka mikið til að vera í Mosó á morgun í skírninni hjá litlu "no name" stelpunni en ég verð með í anda
- Ætla núna að rífa mig upp úr letinni, taka til í íbúðinni svo það verði allt fínt og glansandi þegar Tina kemur heim á morgun og fara svo að lesa fleiri heimildir fyrir rannsóknina mína ...
Meira síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. nóvember 2007
Úrvinda
Ég er algerlega búin á því eftir fimm daga lærdómstörn. Skilaði af mér drögum að kafla áðan, er ekki alveg nógu ánægð með hann, en hef mér til varnar að mig vantar slatta af heimildum sem eru bara til í prentuðu formi heima á Íslandi.
Fer og hitti Dr. Alister í fyrramálið - aldrei að vita nema ég hafi spennandi fréttir fyrir ykkur eftir þann hitting.
Meira síðar og aðeins 18 dagar þangað til ég flýg heim
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. nóvember 2007
Jólaljósin tendruð
Eftir lærdómsríkan dag tók ég langa og góða pásu og fór á tendrun jólaljósanna hér í miðbæ Aberdeen. Þar hitti ég Hrönn og Flórent og Dagmar og Geir og afkomendur og kvöldið var svo endað heima hjá Hrönn og Flórent í pizzaveislu. Virkilega gaman Jólaljósin voru kveikt með skrúðgöngu og skemmtilegheitum, m.a. öllum ökutækjum borgarinnar snjómoksturstæki, sláttuvélum, sjúkra- og slökkviliðsbílum, götusópurunum og auðvitað jólasveininum.
Því er ekki að neita að jólaskapið kviknaði í gær með jólaljósunum - endilega kíkið á myndirnar hér fyrir neðan og sjáið hvort það örli ekki á jólaskapinu ykkar
Þetta voru nokkrar myndir til gamans - hægt er að skoða fleiri með því að smella hér.
Lærdómurinn kallar - meira síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 17. nóvember 2007
Lærdómur ...
er það sem dagurinn í dag á að fara í - en einbeitningarskorturinn er að trufla Þar sem ég sit með tölvuna, búin að koma mér vel fyrir upp í sófa með hrúgu af útprentuðum greinum og aðra "hrúgu" af greinum í tölvunni þá lítur bloggið mun girnilegar út með hverri mínútunni sem líður. Planið er að reyna að lesa þær sem flestar þannig að ég geti skilað inn drögum af "literature review" á fimmtudaginn. Reyndar verða þetta aldrei meira en drög fyrr en ég kem til Íslands í desember þar sem að ég þarf að komast í íslenskar heimildir áður en ég get endanlega gengið frá þessum hluta rannsóknarinnar.
Vegna einbeitningarskortsins hafði ég hugsað mér að koma þó a.m.k. með e-ð fróðlegt og skemmtilegt blogg til tilbreytingar frá því að vera eingöngu að greina frá daglegum "ævintýrum" mínum hér í Aberdeen. En þar sem hugurinn er of mikið á flugi vegna greinalestrar verð ég að fresta því aðeins, eða þar til ég næ að koma smá reiðu á hugsanir mínar
Síðustu dagar hafa að mestu farið í lærdóm og rólegheit. Fór reyndar með Hrönn og Dagmar á útsölu í Boots (hlóum reyndar að því eftir á - sjáið þið fyrir ykkur að eyða fimmtudagskvöldi á Íslandi í apótekinu?) Í gær skrapp ég svo aðeins í búðir á Union Street. Keypti reyndar ósköp lítið spennandi en fékk nokkrar góðar hugmyndir að jólagjöfum sem verða keyptar á næstu vikum, áður en ég fer heim í desember. Talandi um jólagjafir þá eru jólalögin farin að hljóma í verslunum og annars staðar - kannski ekkert skrýtið að þessi einbeitningarskortur sé í gangi við lærdóminn Ég held mig þó hér heima fyrir við þá reglu að spila ekki jólalög fyrr en 1. des eða fyrsta í aðventu, hvor sem kemur á undan. Ég ætla þó að taka smá pásu frá lærdómnum á morgun þegar kveikt verður á jólaljósunum á Union Street með skrúðgöngu, jólasvein og látum. Er það ekki alveg afsakanlegt að taka smá pásu fyrir slíkan atburð?
Annars held ég að ég láti þetta duga í bili og fari að halda á við lærdóminn - meðan ég man þó, til hamingju lið Ísafjarðarbæjar í Útsvari - ég horfði spennt á þáttinn í beinni á ruv.is, frábær þjónusta hjá RÚV!
Að lokum, takk kærlega fyrir kommentin við síðasta blogg kæru vinir - viðurkenni að ég er að fíla mig vel með nýju klippinguna og ekki skemmdu athugasemdir ykkar fyrir
Meira síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. nóvember 2007
Stutt og ljóst
Stundum er einfaldlega tími til breytinga og sá tími var svo sannarlega kominn hjá mér Málið var nú þannig að hárið á mér hefur verið algerlega stjórnlaust síðan ég kom hingað út og var svo komið að toppurinn var orðinn ein krulla
Þar sem ég var orðin hundleið á að reyna að hafa stjórn á hárinu þá impraði ég á því við hana Dagmar vinkonu mína, sem svo vill til að er frábær hársnyrtir, að hún myndi kannski klippa mig við tækifæri. Það tækifæri var í gærkvöldi
Þar sem að ég vissi að tími væri kominn til breytinga gaf ég henni algerlega frjálsar hendur með klippinguna og þetta er útkoman, hvernig finnst ykkur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 12. nóvember 2007
Tíminn líður hratt ...
... og það ekkert lítið. Voru allir búnir að átta sig á því að nóvember er næstum hálfnaður - kominn 12. nóvember og mér sem fannst eins og nóvember væri nýhafinn. Annars er þetta svolítið afstætt - þegar ég hugsa til þess að það eru 27 dagar þangað til ég flýg aftur til Íslands þá finnst mér 27 dagar vera langt, en þegar ég hugsa til þess að það eru bara þrjár helgar og einn laugardagur þangað til þá er það ekki svo langt
Talandi um helgar þá var síðasta helgi mjög skemmtileg Dagmar og Hrönn komu heim til mín í mat á föstudagskvöldið. Ég eldaði auðvitað fyrir þær kjúklingaréttinn minn og að venju sló hann í gegn Eftir mat og afslöppun var ákveðið að kíkja aðeins á lífið í "stórborginni" - klukkan var nú kannski orðin örlítið margt, en á íslenskan mælikvarða vorum við nú ekki seint á ferðinni. Það var þó þannig að það var búið að loka langflestum stöðunum í miðbænum og við enduðum á Babylon sem er ágætur staður - en þar var auðvitað lokað kl. 3 þannig að við héldum eftir það til okkar heima. Sáttar eftir gott kvöld.
Laugardagurinn sló þó allt út því þá fór ég í matarboð til Dagmar og Geirs, hvað haldið þið að hafi verið í matinn?? Jú, SS-pylsur frá Íslandi og auðvitað remúlaði með Mikið grín og mikið gaman og ótrúlega góðar pylsur
Sunnudagurinn fór að mestu leiti í afslöppun en ég kíkti svo til Heather vinkonu minnar, en hún var að flytja inn í íbúð í Torry, sem er eitt af hverfunum hérna í Aberdeen. Reyndar er þetta eitt af "slæmu" hverfum borgarinnar, en sá hluti sem hún er í hefur gengið í gegnum mikla uppbyggingu og breytingar á síðustu árum - borgin er s.s. meðvitað að reyna að breyta upp munstrið sem hafði myndast þarna. Ég verð þó að viðurkenna að þegar ég var á leiðinni heim og sá fram á að þurfa að labba talsverðan spotta til að komast á stoppustöðina í myrkrinu þá var ég voða fegin þegar leigubíll stoppaði fyrir utan húsið sem ég var í að skila af sér farþegum og ég auðvitað greip hann og hann keyrði mig heim fyrir rétt rúm 4 pund. Verð að viðurkenna að það var alveg þess virði enda ísjökulkalt í gærkvöldi ... og reyndar í dag líka
Annars eru engar stórar fréttir af mér - er á fullu að reyna að vinna í þessari rannsókn minni sem gengur frekar hægt - er að vinna svokallað literature review sem þýðir bara lestur og meiri lestur. Talandi um lestur - er á bókasafninu - best að halda áfram að lesa
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. nóvember 2007
Aldurinn
Þetta er stærsta frétt dagsins ... Nú þegar farið er að líða á seinni hluta 27. aldursárs míns þá verð ég að viðurkenna að það er alltaf örlítið gleðilegt þegar ég er beðin um skilríki, t.a.m. þegar ég kaupi áfengi. Ég lenti einmitt í því í dag þegar ég fór að versla í Morrisons Ég var voða kát og sýndi ökuskírteinið mitt - gleðin minnkaði þó þegar ég sá að afgreiðslustúlkan var hreinlega að spyrja alla sem voru að kaupa áfengi bæði á undan mér og eftir - greinilega löghlýðin stúlka. Þá hefur verið einskonar átak í gangi hérna í Aberdeen - auglýsingar um miklvægi þess að spyrja um skilríki í mörgum verslunum, sem er hið besta mál.
Annars er ósköp lítið að frétta héðan frá Aberdeen annað en að það er skemmtileg helgi að hefjast. Dagmar og Hrönn ætla að kíkja í mat í kvöld, líklega lærdómur á morgun og svo matur annað kvöld og svo lærdómur á sunnudag ásamt því sem mér er boðið í heimsókn til Heather vinkonu minnar að skoða nýju íbúðina hennar
Framundan er svo meiri lærdómur og svo Ísland eftir 30 daga
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. nóvember 2007
Bonfire Night
Ég fór fyrr í kvöld ásamt Heather, Tom og fleirum á svokallað Bonfire Night niður á strönd. Fyrir þá sem ekki eru inn í breskum hefðum þá er Bonfire Night tengt atburðum sem gerðust 5. nóvember 1605 í London, þegar Guy nokkur Fawkes reyndi að sprengja upp þinghúsið og konunginn með. Niður á strönd hafði safnast nokkur mannfjöldi - ekki ólíkt því sem gerist á góðri menningarnótt í Reykjavík og þarna stóðum við í kuldanum (já, það var mjög kalt og ég var vel klædd) og biðum spennt eftir flugeldasýningu sem búið var að auglýsa tölvuvert mikið.
Reyndar var mér sagt að þetta væri nú reyndar hálf falskt Bonfire Night þar sem það var engin brenna, þar sem er víst hefðin að brenna brúður á báli (Guy Fawkes). Þrátt fyrir kuldann og biðina þá var flugeldasýningin ágæt. Ég tók nokkrar myndir svona til gamans - tókust flestar miður vel, en hér fyrir neðan má sjá nokkrar.
Annars ósköp lítið að frétta í augnablikinu þannig að meira síðar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)