Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 3. nóvember 2007
Gleði gleði gleði
Langaði bara að deila því með ykkur að ég hef átt virkilega góðan dag í dag Ég vaknaði hress og kát og hitti Heather vinkonu mínar úr skólanum, hún er frá Kanada og er á sömu skrifstofu og ég. Við skelltum okkur á alþjóðlega götmarkaðinn sem er í gangi núna hér í miðbæ Aberdeen og fórum svo í Marks & Spencers og skemmtum okkur stórvel. Hér fyrir neðan eru myndir frá götumarkaðnum:
En það var ekki það sem gerði daginn svona svakalega skemmtilegan Málið er að þegar ég kom heim úr bænum þá var ... netið mitt komið Loksins, loksins Þannig að núna get ég verið nettengd heima sem er mjög gaman - verð að viðurkenna að ég hef saknað þess
Hreinlega varð að deila með ykkur þessari gleði minni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 2. nóvember 2007
Heimþrá vegna veðurs
Ég verð að vera hreinskilin - ég er illa haldin þessa daganna vegna heimþrár og get ekki beðið eftir að komast heim í desember Ég hef verið merkilega laus við heimþrá síðan ég kom hingað, en allt í einu kom þessi svakalega heimþrá yfir mig, bara núna í vikunni. Á ég að deila með ykkur af hverju? ... Jú snjórinn kom heima og mig langar í snjó
Svona að öllu gamni slepptu þá verð ég að taka það fram að mér líður ósköp vel hérna í Aberdeen og hef eignast góða vini hér Deildin mín er frábær, allir svaka indælir og meira að segja konurnar á nemendaskránni eru svaka fínar og gott að eiga við þær - aldrei neitt vesen, jafnvel þegar maður er með vesen Hins vegar er varla hægt að segja það sama um afgreiðslufólk í verslunum, það á það til að vera nokkuð hranalegt og mér er sagt að svoleiðis sé það bara Ég er reyndar alltof góðu vön og geri mér nú enn betur grein fyrir því hvað það eru ótrúlega mikil forréttindi að búa á Ísafirði þar sem ég get farið inn í verslun og fengið persónulega og umfram allt góða þjónustu
... Lagið úr Staupasteini kemur upp í huga mér um leið og ég skrifa þetta ... Where everybody knows your name, damm damm damm damm, and they're always glad you came, damm damm damm - You wanna be where you can see, our troubles are all the same, You wanna be where everybody knows Your name.
Já, ég hlakka svaka mikið til 9. desember næstkomandi Ég sakna fjölskyldunnar, vinanna, vinnunar og umfram allt Ísafjarðar! Þó mér líði vel hér, þá er Ísafjörður þar sem hjarta mitt er og ég held að þó ég eigi eflaust eftir að fara stundum í burtu, eins og núna, þá eigi ég alltaf eftir að snúa aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 29. október 2007
Engan veginn að standa mig ...
... í þessu bloggi. Ætlaði að vera voðalega dugleg og blogga á fimmtudaginn þegar netið kæmi heim, en nei - það er saga að segja frá því.
Þar sem ég var jú mjög spennt yfir að fá netið heim ákvað ég að vera heima á fimmtudaginn og taka á móti pakkanum sem innihélt routerinn og netsíma og fleira nauðsynlegt til að tengjast netinu. En nei nei, einhvern veginn tókst mér að missa af póstmanninum (hef hann grunaðan um að hafa ekki hringt nýju fínu bjöllunni) þannig að ég fékk bara miða sem sagði að ég hefði misst af honum en gæti sótt pakkann eftir 24 klst á næsta pakka pósthús sem talsvert langt í burtu frá mér, í allt öðru hverfi takk fyrir Ég ákvað þó að hringja í pósthúsið og ath hvort ég mætti hugsanlega sækja pakkann seinna um daginn, ætlaði að reyna að koma mér e-n þangað með strætó eða e-u. Konan í símanum var voða hress og sagði jájá, ekkert mál - pakkinn bíður bara eftir þér. Jájá, ég fer í að leita að upplýsingum um strætóa sem ganga þangað en var svo heppinn að heyra í Dagmar í millitíðinni og var hún svo æðisleg að bjóðast til að skutla mér á pósthúsið
Ég var voðakát með það og við brunum á Wellington Circle þar sem pósthúsið er, með aðstoð TomTom. Þegar við finnum svo pósthúsið hleyp ég inn og hitti þar fyrir strák á aldri við mig. Hann virkar ekkert ógurlega glaður að sjá viðskiptavin en eftir nokkra bið kemur hann og talar við mig.
Ég rétti honum miðann og eftir að hafa litið á hann snýr hann sér að mér aftur og segir, sorrý, það er ekki hægt að sækja þennan pakka fyrr en á morgun. Ég sagði honum frá því að ég hefði hringt í símanúmerið á miðanum og talað við konuna sem sagði að ég mætti sækja hann núna, hvort það væri ekki e-r leið til að ég gæti fengið pakkann núna - ég væri bíllaus og ætti heima langt í burtu Hann stynur, þá það en þá verð ég að leita að honum því það er ekki búið að ganga frá pökkunum í dag. Ég fann að samviskubitið væri ekki langt undan hjá mér og bjóst við að hann þyrfti að fara e-ð lengst og vesenast til að finna pakkann
Þetta sama samviskubit hvarf þó þegar hann snéri sér að borðinu við hliðina honum og lyfti upp tveimur pökkum og fann pakkann minn þar undir, tók kannski 40 sekúndur að finna hann. Í gleði minni yfir að fá pakkann sagði ég e-ð á þessa leið: Takk kærlega fyrir, þú bjargaðir lífi mínu (ok, mjög ýkt ég veit - en vá hvað ég hlakkaði til að fá netið heim, auk þess sem gaurinn var svo fúll að ég vildi segja e-ð til að sýna mikilvægi þessa pakka fyrir mig). Þá svaraði hann: Já, en ég er nokkuð nálægt því að taka líf e-s annars í staðinn.
Ég stóð þarna orðlaus í nokkrar sekúndur áður en ég greip pakkann, þakkaði pent fyrir mig og labbaði hratt út - kom út í bíl til Dagmar og sprakk úr hlátri
Þegar ég kom heim um kvöldið, eftir að hafa farið í heimsókn ásamt Dagmar og strákunum til Hrannar og stelpnanna, kom í ljós að ég hafði ekkert þurft að vera að stressa mig á þessum blessaða pakka Af hverju? Jú, það var ekki búið að tengja netið hjá mér. Ég var voða kát þegar ég kom heim, reif routerinn og símann úr kassanum og tengdi allt eftir kúnstarinnar reglum og ekkert ljós kveiknaði þar sem það átti að kveikna. Ég prófaði símann, sem virkaði og hringdi í símafyrirtækið (BT). Eftir að hafa verið send á milli þriggja aðila, komst ég loks í samband við stelpu sem var voðalega sorrý yfir að enginn hefði haft samband við mig - en málið er s.s. að það er bilun í símstöðinni í götunni og því hefur ekki verið hægt að tengja línuna fyrir mig. Verður það gert í síðasta lagi 6. nóvember, en vonandi fyrr. Ég verð að viðurkenna að ég var frekar mikið pirruð, en gat svo sem ekki farið að skamma stelpugreyið sem var voðalega sorrý og lofaði að það yrði hringt í mig um leið og línan yrði tengd
Þannig að, ég er s.s. ekki komið með net heim - kemur vonandi í vikunni - í síðasta lagi í næstu viku ... Ég er þó a.m.k. komin með heimasíma ... en það er ekki hægt að hringja í hann fyrr en netið verður tengd, þannig að ...
En á jákvæðu nótunum þá fann ég loks íþróttabuxur sem mig líkaði við í gær og stefnan er sett á skokk í hádeginu Það er nefnilega svo frábær aðstaðan hérna að það er sturta í byggingunni minni. Þannig að planið er núna að koma sér í betra form og taka alltaf smá skokk í hádeginu, það er víst mjög fínn almenningsgarður hérna rétt fyrir ofan sem passar fínt fyrir hálftíma-klukkutíma skokk
En best að fara að læra - meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 23. október 2007
Um daginn og veginn
Já, það er orðið nokkuð síðan ég skrifaði hérna síðast. Hef svo sem enga almennilega afsökun fyrir því, aðra en að það er ósköp lítið að frétta af mér. Lítið annað gert en að vakna á morgnanna, fara í skólann, koma heim, fara að sofa
Fartölvan sem ég sagði frá í síðasta bloggi er komin sem er meiriháttar og ég verð að viðurkenna að ég er mjög ánægð með hana - netið í íbúðinni verður svo tengt á fimmtudaginn, jibbí!! Það verður án efa þvílíkur munur, auk þess sem ég get þá notað Skype-ið og msn-ið til að hringja heim sem er jú ólíkt ódýrara að nota en símann
Annars er ég bara á fullu þessa dagana að reyna að útfæra rannsóknina mína. Það lítur allt út fyrir að ég þurfi aðeins að breyta aðferðafræðinni og jafnvel minnka hana aðeins, verð víst að gera mér grein fyrir að ég hef bara eitt ár til að vinna þetta Þannig að akkúrat núna er ég að vinna SWOT greiningu á mismunandi leiðum sem ég get farið og þarf að senda fljótlega á prófessorana mína (Alister og Lornu) og svo hitta þau í fyrramálið og fara yfir málið. Hugsa að ég endi á að gera annað hvort bara könnun eða bara viðtöl, sjáum til.
En já, best að halda á ef ég ætla að ná að skila þessu inn á réttum tíma Stefnan er svo sett á Drekktu betur í kvöld með félagi landafræðinema - verður víst svaka fjör, prófessorarnir ætla víst margir að mæta og alveg slatti af postgrad nemum þannig að ég held að málið sé að láta sjá sig
Meira á fimmtudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. október 2007
Rannsóknarspurning, fartölva og helgin
Síðustu dagar hafa óneitanlega verið skemmtilegir hérna í Aberdeen.
Eins og ég hafði sagt frá áður þá er ég komin með rannsóknarspurningu sem er mjög jákvætt og fer tími minn þessa dagana mest megnis í að vinna að henni. Ég ætla, í mjög stuttu máli, að rannsaka viðhorf Íslendinga til landsbyggðarinnar; athuga hvort það sé munur á viðhorfum milli svæða og hvort það sé munur á viðhorfum þeirra sem vinna að byggðamálum annars vegar og almennings hins vegar ... hljómar spennandi ekki satt?
Í augnablikinu snýst vinnan fyrst og fremst um að lesa greinar og afla heimilda, mjög spennandi eða þannig. En stefnan er sett á að safna efni þegar ég kem heim um jólin, þannig að ég kem væntanlega til með að stoppa talsvert lengi á Íslandi, jafnvel hátt í 2 mánuði - fram í febrúar - sem ég kvarta ekki undan! Í framhaldi af því mun ég vinna úr efninu hérna í Aberdeen og vonandi klára rannsóknina í ágúst á næsta ári og útskrifast með MSc by research in Human Geography í september
Já, svo er ég búin að breyta fluginu heim um jólin - lendi á Keflavíkurflugvelli 9. desember! Jájá, ég veit - skipulagsfíknin að fara með mig - en ég stóðst ekki freistinguna þegar ég sá fram á að geta komið heim viku á undan áætlun - vika í viðbót til að baka smákökur og gera annað skemmtilegt í aðdraganda jólanna
Annars er mest lítið að frétta - jú, ég pantaði mér fartölvu á miðvikudaginn - loksins, loksins!! Gafst s.s. upp á að bíða eftir breska bankakortinu og hafði samband við Dell og spurði hvort það væri e-r leið til að ég gæti notað íslenska kreditkortið mitt. Jújú, ekkert mál og ég pantaði tölvuna
En til að gera stutta sögu langa þá kostaði hún 879 pund með sendingarkostnaði þegar ég pantaði hana á miðvikudaginn. Á fimmtudaginn fór ég aftur á heimasíðuna hjá þeim til að sýna litlu systur hvaða tölvu ég hefði verið að panta og neinei, haldið þið að verðið hafi ekki verið komið niður í 819 pund?! Ég var frekar pirruð eins og þið getið ímyndað ykkur, sérstaklega þar sem ég hafði verið í sambandi við sölumanneskju hjá Dell og hún lagði mikla áherslu á að ég myndi kaupa tölvuna þann dag því að tilboðinu sem þá var í gangi væri að ljúka. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að senda póst á Dell customer service og kvarta, bara til að vera ekki pirruð yfir þessu og verða jafnvel óánægð með tölvuna út af því að ég væri pirruð yfir þessu
Ég var svo sem ekkert að búst við að fá annað en upplýsingar um það að þeim þætti þetta voðalega leiðinlegt en það væri ekkert hægt að gera og það hefði svo sem alveg dugað mér. En mér var hins vegar svarað mjög fljótt og vel og var mér sagt að þeim þætti þetta alveg voðalega leiðinlegt og þeir væru tilbúnir til að endurgreiða mér 40 pund eða ef ég vildi hætta við pöntunina og panta aftur á lægra verðinu þá myndu þeir endurgreiða mér eins fljótt og hægt væri Ég ákvað að taka bara 40 punda tilboðinu sem þýðir að ég fékk tölvuna á 839 pund sem ég er alveg sátt við - sérstaklega þar sem hún er nú þegar á leiðinni til mín og kemur til mín í fyrramálið, sem er frábært!
Helgin var svo meiriháttar skemmtileg. Ég fór með Dagmar og Hrönn að sjá Píkusögur í Leikhúsi hans hátignar og ég verð að viðurkenna að sýningin kom mér skemmtilega á óvart - og ekki skemmdi skoski hreimurinn fyrir Eftir sýninguna fórum við á pöbbarölt og skemmtum okkur konunglega, kannski einum of vel en það er bara gaman af því svona endrum og eins! Í gær var það svo bara leti fyrir framan sjónvarpið
En jæja, þetta er nóg í bili - takk kærlega fyrir kommentin btw, alltaf gaman að fá þau og fá e-a vísbendingu um hverjir eru að lesa síðuna
- Sigga, ég get reyndar alveg tekið undir með þér með að hlakka til jólanna og njóta þess o.s.frv., fer bara örlítið í taugarnar á mér öll þessi sölumennska sem er farin að vera í kringum þetta. En ég viðurkenni það fúslega; ég hlakka svaka mikið til jólanna - næstum jafn mikið og ég hlakka til 9. des! Er ekki málið að taka aðventuna á Ísafirði með trompi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 10. október 2007
Jólin, jólin allstaðar ...
... eða svona því sem næst. Hér í Aberdeen er samt orðið augljóst að jólin eru í þarnæsta mánuði og það fer bæði í taugarnar á mér og samt ekki. Það er ekkert jólaskraut komið upp enn eða neitt svoleiðis, bara svona litlir hlutir sem minna á jólin. Til að mynda er verið að auglýsa eftir jólastarfsfólki í næstum öllum búðargluggum. Í mörgum verslunum er jólapappír og jólakort á áberandi stöðum og í þeim allra "verstu" er verið að selja jólaskraut og sérstök jólagjafaborð komin upp.
Eins og ég sagði þá fer þetta bæði í taugarnar á mér og samt ekki. Það fer alveg svakalega í taugarnar á mér þetta jólastúss og það er bara byrjun október!! Samt fer þetta ekki í taugarnar á mér að því leitinu að þetta minnir mig á hversu stutt er ég fer heim í jólafrí
Ég viðurkenni það fúslega að ég hlakka mikið til að koma heim, sakna Ísafjarðar og fólksins heima. Það er samt ekki þannig að ég sé með brjálaða heimþrá eða þannig. Mér líður virkilega vel hérna og finn hvað ég hef gott af því að vera hérna en samt hlakka ég til að koma heim aftur - skiljið þið hvað ég á við?
Síðasta helgi var alveg stórfín þar sem ég fór í mat hjá Hrönn og Flórent ásamt Dagmar og Geir, íslenska fólkið sem ég minntist á í síðasta bloggi. Skemmtilegt fólk, frábært að geta talað íslensku, svona til tilbreytingar og virkilega góður matur. Við Dagmar og Hrönn ætlum svo að skella okkur í leikhús á laugardaginn n.k., hlakka mikið til
Annars gengur allt sinn vanagang hérna í Aberdeen. Ég vakna á morgnanna, mæti í skólann, vinn að verkefninu mínu, fer heim, glápi á sjónvarp og fer að sofa. Auðvitað eru smá breytingar dag frá degi, eins og í kvöld verður lítið um sjónvarpsgláp þar sem ég er að fara á kóræfingu. Ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkur það en ég er s.s. komin í háskólakórinn og það er enginn lítill metnaður í gangi. Æfingar eru vikulega, á miðvikudagskvöldum, og þessa stundina erum við að æfa Nelson messuna eftir Hayden og verða tónleikarnir þann 11. nóvember n.k. þar sem kórinn kemur fram ásamt hljómsveit skólans og einsöngvurum. Mjög spennandi
En þetta er svona það helsta í fréttum héðan frá Aberdeen í bili, meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 5. október 2007
Fréttir að utan
Jæja, þriðju vikunni minni að ljúka. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, aðeins 72 dagar þangað til ég fer heim í jólafrí
En já, þriðju vikunni minni í Aberdeen að ljúka og hlutirnir loksins farnir að gerast! Ég er komin með rannsóknarspurningu, sem er ólýsanlega jákvætt og ég því farin að geta einbeitt mér betur að vinnunni - ólíkt þægilegra að einbeita sér að e-u einu í stað þess að vera lesa hitt og þetta og allt hálf stefnulaust.
Til að gefa ykkur smá innsýn í verkefni dagsins þá er ég að lesa tvær greinar þessa stundina. Önnur heitir "Q Methodology and Rural Research" (Sociologia Ruralis, April 2007) og hin heitir "Country Backwater to Virtual Village? Rural Studies and ´The Cultural Turn´" (Journal of Rural Studies, 1997). Hvort þær eigi eftir að koma að notum við verkefnið verður að koma í ljós, en þær eru nokkuð áhugaverðar burt séð frá því. Ég er s.s. þessa dagana að vinna að aðferðafræði fyrir rannsóknina mína og þessar tvær greinar, auk tuga annarra, eiga vonandi eftir að gefa mér e-r hugmyndir
Annars er Aberdeen að verða skemmtilegri með hverjum deginum sem líður. Í fyrsta lagi er ég loksins farin að tengjast fólkinu hérna í skólanum, sem er meira jákvætt en ég get lýst og í öðru lagi er ég komin í samband við Íslendinga hérna á svæðinu sem eru í ofanálag á mínum aldri og er það meira en lítið frábært ... ekki að Skotarnir séu ekki skemmtilegir, einfaldlega skemmtileg tilbreyting að fá að tala íslensku og tala um íslenska hluti Það hefur í rauninni verið eini gallinn við það að vera ekki í fyrirlestrum, erfiðara að kynnast fólki fyrir vikið. En nú eru hinir sem eru á skrifstofunni minni farnir að koma úr sumarfríum og vettvangsferðum þannig að staðurinn er mun líflegri en hann var fyrstu tvær vikurnar.
Svona til að gefa ykkur e-a hugmynd um hvernig þetta er þá er ég s.s. á skrifstofu með 6 öðrum. Hvert okkar er auðvitað með sitt skrifborð og sína tölvu en í sama herberginu. Það eru tvær aðrar svona skrifstofur fyrir doktors/rannsóknarnema í deildinni (landafræðideildinni) en þessi skrifstofa er stærst (fjögur skrifborð í hinum skrifstofunum).
Ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkur það en byggingin sem ég er í heitir St. Mary's og sá hluti hennar sem ég er er gömul kirkja, nokkuð áhugavert. En byggingin er s.s. samsett af þremur misgömlum byggingum og því alveg sérstaklega auðvelt að villast hérna. Ekkert nema stigagangar hér og þar og hálfar hæðir hist og her. Ég er þó komin á það stig að rata á skrifstofuna mína (sem er jákvætt), á kaffistofu kennara og rannsóknarnema, á skrifstofur Alisters og Lornu (prófessorar sem ég vinn með) og á klósettið (sem er virkilega jákvætt). Lorna sagði mér reyndar að það væri e-r litakóði á göngunum sem ætti að hjálpa manni að rata, en ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að átta mig á þeim kóða enn ... en sjáum til, verð væntanlega orðin mjög klár í þessu öllu saman eftir árið.
Hvað um það. Ég hef byrjað nokkrum sinnum á bloggum þar sem ég hef ætlað að segja frá Aberdeen og íbúum borgarinnar en alltaf gefist upp á fyrstu setningunni. Það er fullt af hlutum hérna sem væri hægt að segja frá en þeir myndu hljóma allir svo klisjulega að ég hef eiginlega hætt við það. En svona til að gera góðlátlegt grín af þeim þá fékk ég þennan tölvupóst í síðustu viku (þýtt yfir á íslensku) frá heilbrigðis- og öryggisfulltrúa deildarinnar:
"Eftir nýlegan fund í heilsu- og öryggisnefndinni vegna atviks sem átti sér stað í St. Mary's hef ég verið beðinn um að mæla með því við allt starfsfólk og alla nemendur að halda í handriðið þegar þeir fara upp og niður stiga byggingarinnar."
En já, föstudagsseinnipartur og allir farnir heim nema ég þannig að ég er að hugsa um að gera slíkt hið sama. Meira síðar
P.S. Anna Kristins svaraði NIMBY hárrétt en svona til fróðleiks fyrir helgina þá er BANANA = Build Absolutely Nothing Anywhere Near Anything eða Build Absolutely Nothing Anywhere Near Anyone.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 2. október 2007
Komin með rannsóknarspurningu?
Ég tók því ósköp rólega um helgina. Naut þess að labba um miðborgina og skoða hana betur en ég hef gefið mér tíma til áður. Veðrið hefur auk þess snarlagast síðustu daga og í gær var sól og blíða og lítur út fyrir að það verði eins veður í dag - kvarta ekki undan því!
Reyndar gefst ósköp lítill tími til að njóta veðursins. Var inni allan gærdag að læra og verð það í dag líka - nýti þó tækifærið meðan veðrið er svona gott og labba heim úr skólanum. Annars er ég með gleðilegar fréttir! Ég held ég sé búin að finna rannsóknarspurningu sem ég get hugsað mér að vinna með í vetur Hún datt inn í kollinn á mér í gær og ég er búin að hugsa um hana stanslaust síðan þá, hún var í kollinum á mér þegar ég sofnaði og var enn þar þegar ég vaknaði í morgun - lofar góðu ekki satt? Ég á eftir að útfæra hana betur leggja hana fyrir prófessorinn minn og ef allt gengur upp þá byrja ég að vinna að spurningalistum og endanlegum útfærslum strax í vikunni.
En já, verð að halda áfram að læra. Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 29. september 2007
... og alltaf nóg að gera
Ég fór í alveg hreint stórskemmtilega ferð í gær með SRD (Sustainable Rural Development) hópnum hans Alisters í gær. Dagurinn byrjaði mjög snemma eða kl. 8.00. Við byrjuðum á að keyra til the Bridge of Dee sem var byggð árið 1527 og fengum þar upplýsingar um vandamál þau sem Aberdeenborg stendur frammi fyrir vegna gríðarlegs umferðarálags frá Aberdeenshire þegar fólkið sem býr í sveitinni keyrir inn í borgina til að sækja vinnu og eins seinni partinn þegar þetta sama fólk er að fara út úr borginni. Þetta vandamál á að reyna að leysa með því að byggja bypass sem mun meðal annars liggja í gegnum græna beltið sem liggur í kringum borgina og mun kosta milljónir punda að byggja. Eftir að hafa heyrt ýmislegt áhugavert um umferðina og eins ánna Dee sem er víst ein sú hreinasta í Evrópu (mér varð nú hugsað til Íslands) þá lá leið okkar út úr borginni og til óðalseiganda eins sem er að berjast gegn bypassinu. Ef þið hafið áhuga á að lesa meira um þetta fyrirhugaða bypass þá er þetta áhugaverð síða: http://www.aberdeengreenbelt.org/. Það eru s.s. mjög skiptar skoðanir um þetta og alltof langt mál að fara að greina frá því hér.
Ég tók nokkrar myndir í ferðinni en e-a hluta vegna gleymdi ég vélinni alltaf í rútunni. Hér eru þó tvær sem ég tók þegar við hittum óðalseigandann og ein sem ég tók í heimabæ Dr. Alister.
Við fórum frá óðalinu til Banchory og svo til Kincardine O'Neill sem er bær sem þykir nokkuð merkilegt fyrir þær sakir að það er einn maður sem á allan bæinn. Fólkið sem býr í bænum leigir einfaldlega húsin sín af honum o.s.frv. Virkilega áhugavert, en hann þykir víst mjög góður maður, auk þess sem hann hefur lagt mikla áherslu á að bjóða upp á leigu á viðráðanlegu verði og gott húsnæði. Fólkið vinnur svo flest í fyrirtækjum sem hann á o.s.frv. Þaðan fórum við og skoðuðum náttúruverndarsvæði sem er upp í Hálöndunum (þó það sé í Aberdeenshire). Þar sáum við m.a. Loch Devon og Loch Kinord og Burn o'Vat sem þykir mjög sérstakt náttúrufyrirbrigði. Á svæðinu eru líka fornleifar frá járnöld og margt fleira merkilegt. Virkilega fallegt svæði sem ég mæli með að þið kíkið á ef þið eigið leið til Skotlands og langar að kynnast skoskri náttúru.
Hvað um það, þaðan fórum við svo til Kintore sem er nokkuð merkilegur bær, en þar hefur verið alveg gríðarleg uppbygging á síðustu árum ... uppbygging sem er ekki svo frábær (jájá, það má deila um það). Í stað þess að byggja upp bæ í skoskum stíl var að keyra inn í þennan bæ eins og að keyra inn í klónaðan amerískan smábæ. Öll húsin voru eins og allar göturnar voru eins. Strákurinn sem ég sat við hliðina á í rútunni er einmitt frá Minnesota í Bandaríkjunum og honum leið einfaldlega eins og hann væri kominn heim. Til að gefa ykkur e-a hugmynd um hversu slæmt þetta var þá þorði ökumaðurinn ekki að keyra inn í hverfið því hann var einfaldlega hræddur um að villast - öll húsin og allar göturnar eru eins.
Svo var haldið heim á leið á ný. Stefnan er tekin á rólega helgi. Er reyndar að tryllast á að vera ekki með netið heima, en það kemst vonandi í lag á næstu vikum. Er búin að velja tölvu, en er að bíða eftir að fá breskt bankakort til að geta pantað hana. Þangað til það kemur verð ég víst einfaldlega að sætta mig við að vera sambandslaus nema þegar ég er upp í skóla.
En jæja - bið að heilsa í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 26. september 2007
Veturinn kominn í Aberdeen?
Brr... það var svo kalt í morgun að ég get ekki einu sinni byrjað að lýsa því. Heimamenn vilja meina að það sé óvenju kalt miðað við árstíma, hef ákveðið að taka það trúanlegt og vona að þetta sé bara óvenjulegur dagur og það muni hlýna aðeins aftur, svona fyrir veturinn. Annars var hálf kostulegt að fara út í morgun, það er ótrúlegt hvað fólk hérna klæðir sig illa, enginn með húfu eða vettlinga og margir enn í sumarjakkanum eða bara í hettupeysum, þrátt fyrir að hitastigið sé örugglega ekki mikið yfir 5°C. Ég var hins vegar með húfu og trefil og var í vetrarjakkanum, samt var mér hálfkalt
Hvað um það, nú þegar ég er búin að vera hérna í viku eru dagarnir farnir að ganga sinn vanagang. Ég vakna á morgnanna, fer upp í skóla, kveiki á tölvunni og byrja að lesa greinar og annað áhugavert efni. Fer svo heim seinni partinn og dunda mér við hitt og þetta þar til kominn er tími til að fara að sofa.
Hmm... best að byrja á mánudeginum. Þá hitti ég Alister í fyrsta skipti og ég held að okkur eigi eftir að ganga vel að vinna saman í vetur. Ég þarf ekki að taka neina áfanga (sem ég var voða kát með) en við vorum sammála um að ég myndi sitja fyrirlestra í tveimur áföngum, Rural Policy og The Changing Countryside, ég er þó ekki skráð í þessa áfanga og tek engin próf, heldur hef einfaldlega leyfi til að sitja fyrirlestrana sem gætu, miðað við kennsluskrána, verið mjög áhugaverðir og hjálplegir. Á föstudaginn fer ég með öðrum bekknum í dagsferð um sveitarfélögin í nágrenninu og hitta fólk sem er að vinna að stefnumótun og þróun landsbyggðarinnar í Skotlandi, mjög áhugavert, auk þess að vera gott tækifæri til að sjá svæðið fyrir utan borgina
Í gær sat ég tvo fyrirlestra. Annar vakti einkum áhugaverðar spurningar sem ég stenst ekki freistinguna að leggja fram hér, endilega ef þið hafið e-a skoðun á þeim, kommentið í athugasemdakerfinu.
1. Hvað er dreifbýli/landsbyggð?
2. Hvernig landsbyggð viljum við?
3. Erum við of upptekin af að "selja" landsbyggðina? - Skipta peningar okkur of miklu máli?
4. Er dreifbýli endilega andstæða þéttbýlis?
Svo voru rifjaðar upp alveg ótrúlega skemmtilegar skammstafanir sem koma oft upp, einkum í tengslum við skipulagsmál - NIMBY og BANANA Veit e-r fyrir hvað þessar skammstafanir standa fyrir?
Já, þetta verður örugglega hinn ágætasti vetur. Í gær fór ég svo með Tinu og fjölskyldu hennar og vinum út að borða og svo í keilu, svaka fjör - tók talsverðum framförum í seinni umferðinni, en skorið var þó það slæmt að það verður ekki upplýst hér. Fórum svo á kránna eftir á, eins og allir gera hér og ég var svo mætt hér í skólann um hálf níu, ósköp notalegt. Í dag er það bara vinna fram á kvöld, en stefnan er sett á kóræfingu hjá Háskólakórnum kl. 19.00 - var bent á að það væri svaka fjör og ætla að prófa
Jæja, vinnan kallar, meira síðar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)