Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 24. september 2007
Rútur, lest, skipsbrú og hús úr símastaurum
Já, þá er ég loksins orðin betur nettengd. Sit núna við skrifborðið mitt í skólanum og ætti að vera að lesa og undirbúa mig fyrir fundinn með Alister (prófessornum mínum) en ákvað að blogga í staðinn. Er reyndar búin að vera ágætlega dugleg í morgun, las meira að segja í hádegismatnum, þannig að ég ákvað að ég mætti taka mér smá pásu
Síðustu dagar hafa verið alveg hinir ágætustu, þó ég verði að viðurkenna að mér líður töluvert betur núna þegar ég er orðin nettengd, þó ekki sé nema í skólanum. Stefnan er tekin á að kaupa fartölvu og netið heim mjög fljótlega. Vandamálið er bara að Dell eru ekki með neinar verslanir heldur er bara hægt að panta þær online og það er 4 vikna bið eftir tölvunni sem mig langar í (já, Arna Lára það er tölva eins og þín - hún er bara flott! ). Hvað um það - ætla s.s. að kíkja í PC World eftir að ég hitti Alister og kíkja á hvað er í boði þar og ef það er e-ð flott þá kaupi ég kannski bara tölvu þar - sé bara til. Jæja, eins og áður hefur komið fram þá líkar mér alveg hreint ágætlega við konuna sem ég bý með. Hún á mann og 2 börn (25 ára og 31 árs) og býr upp í sveit þegar hún er ekki í skólanum í Aberdeen. Einfaldasta leiðin til að lýsa henni er að segja að hún sé gamall hippi. Ég fór ásamt Michaelu (kanadísk stelpa sem bjó áður með Tinu) og Lindsey (stelpan sem á íbúðina) og kærasta hennar heim til Tinu í sveitinni á laugardaginn. Tina og maðurinn hennar áttu afmæli og það var haldið vægast sagt svakalegt partý með í kringum 100 gestum. "Húsið" þeirra er vægast sagt sérstakt og er kallað The Depot. Þau búa s.s. í gamalli námu og eiginlega í nokkrum "húsum". Stærsta húsið er einfaldlega stór geymur, svipað og geymsluhúsnæði en þar inni eru tveir gamlir strætisvagnar og skipsbrú og nokkrir æðislegir gamlir bílar, tvö mótorhjól og .... já, ég gæti lengi haldið áfram. Þau eru s.s. með svefnaðstöðu í báðum rútunum og hálfgerða stofu í annari rútunni og eldhús í hinni. Svo er fullkomið upptökustúdíó í skipsbrúnni. Þetta er þó ekki allt því að þau eru með svefnherbergi fyrir utan þetta "geymsluhúsnæði" í gömlu námuskrifstofunni og svo eru þau með lestarvagn þar sem er annað eldhús og svefnherbergi. Svo fyrir ofan námuna er enn eitt húsið þar sem er svona hálfgert upptökuhúsnæði líka. Það húsnæði er búið til úr gömlum símastaurum. Jebb, trúið þið mér ekki alveg? Þetta var s.s. ævintýralegt partý. Það voru e-r sex hljómsveitir að spila og þar af ein sem er víst töluvert vinsæl hérna í Aberdeen, The Merciful Sinners (ef ég man rétt) og svo var risastór varðeldur og allir voða kátir og hressir. Á meðan það voru rokkhljómsveitir niðri í Depot-inu var Drum'n'Bass uppi í símastaurahúsinu. Já, þetta var vægast sagt frábært partý. Við Micheala fengum að sofa í annarri rútunni, á gömlum rútusætum á meðan Lindsey og kærastinn hennar tjölduðu uppi á næstu hæð hjá skipsbrúnni ásamt fleirum. Ég tók nokkrar myndir (ekki nógu margar finnst mér svona eftir á að hyggja) en þar sem að ég gleymdi snúrudæminu heima þá verða þær að bíða betri tíma. En jæja, það er farið að styttast ískyggilega í að ég eigi að hitta Alister í fyrsta skipti - heyri betur í ykkur síðar. Já, meðan ég man takk kærlega fyrir allar kveðjurnar - þær hafa haldið í mér lífinu hér á ókunnum slóðumBloggar | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 20. september 2007
A lifi - an islenskra stafa
Jaeja, komin timi a frettir af mer. Eg er buin ad vera i Aberdeen sidan a tridjudag og enn gengur allt vel. Ibudin er litil en notaleg, herbergisfelaginn er jafnvel betri en eg tordi ad vona (gamall hippi) og tratt fyrir ad hafa villst baedi a campusnum og i byggingu deildarinnar ta lyst mer nokkud vel a skolann lika Er reyndar enn half ringlud yfir tessu ollu saman og er enn ad atta mig a hlutunum en hef fulla tru a ad tetta reddist allt saman, to eg se enn daudhraedd vid tetta allt saman
Er nuna i husnaedi nemendafelagsins (The Hub) og er ad nota tolvu tar. A eftir ad kaupa fartolvu og net til ad nota heima og verd tvi sambandslaus e-d fram i naestu viku.
En ja, meira sidar - tegar netid er komid.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 15. september 2007
Örstutt
Sæl öllsömul,
þetta er bara örstutt, svona til að láta vita að ég er á lífi. Ég lagðist auðvitað í flensu þessa síðustu viku mína hérna á Ísafirði og er enn drulluslöpp, hóstakjöltrið að taka úr mér alla orku. Ég er að eyða þessum síðasta degi mínum hér á Ísafirði í að pakka (já, það varð heldur lítið úr pökkun með hita og hósta) og fer fer suður í fyrramálið. Býst við að taka því rólega fyrir sunnan og reyna að ná þessum flensudjöfli (afsakið orðbragðið) úr mér áður en ég held erlendis á þriðjudagsmorguninn, það eru því mörg plön fallin úr skorðum hjá mér Ætlaði að nýta þessa viku þvílíkt vel til að hitta alla og kveðja en það varð e-ð lítið úr því. En svona er lífið stundum, ég kem aftur um jólin og kveð ykkur öll almennilega þá í staðinn, það er nú heldur ekki eins og ég sé að fara mjög langt
En já, næsta blogg verður væntanlega frá Skotlandi þannig að bless í bili og hlakka til að "hitta" ykkur aftur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 7. september 2007
10 dagar til stefnu - Fjórðungsþing
Já, nú er ég stödd á Tálknafirði, í íþróttahúsinu nánar til tekið, á 52. Fjórðungsþingi Vestfirðinga. Hér er fjöldi sveitarstjórnarmanna og annara gesta saman kominn til að ræða málefni fjórðungsins. Ég er hér sem starfsmaður Fjórðungssambandsins og því meira en nóg að gera hjá mér. Stefnan er sett á Ísafjörð að nýju seinni partinn á morgun.
Ég hlakka mikið til að koma heim aftur, þó að Tálknafjörður sé nú reyndar einn af mínum uppáhaldsstöðum, en tómir kassar og fullt herbergi bíða mín heima. Næstu dagar munu sem sagt fara í að pakka, vinna og kveðja, eins og áður hefur komið fram.
En jæja, vinnan kallar. Meira síðar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 4. september 2007
2 vikur til stefnu - Gleðifréttir
Styttist enn meir í brottför. Nú get ég þau hreinskilnislega sagt að ég hlakka til þess að fara, þó ég muni sakna Ísafjarðar. Ástæða þess er einföld, ég er komin með húsnæði og þarf því ekki að búa á götum Aberdeen-borgar eins og leit út fyrir um tíma
Ég mun sem sagt leigja íbúð með enskri stelpu sem er á aldri við mig. Íbúðin er á besta stað í borginni, rétt við Union Street, sem er "Laugarvegur" þeirra Aberdeenbúa. Það er víst ca. 20 mínútna gangur í skólann, sem er mjög fínt upp á að losna við smá af þessu sumarspiki sem ég hef nælt mér í, en ég er að íhuga að kaupa jafnvel bara hjól þegar ég kem út, er það ekki voðalega breskt og háskólalegt?
Já, íbúðin komin og lífið er allt miklu bjartara fyrir vikið, þrátt fyrir veðrið sem virðist vera að hrjá flesta landsmenn í dag. Þessar tvær vikur sem eru eftir verða þó nokkuð strembnar, nóg að gera í vinnunni - margt sem ég þarf að skila af mér áður en ég hætti. Svo þarf ég að pakka pakka og pakka, er þó byrjuð á því - stefnan er sett á að taka eins lítið með og æskilegt er. Að lokum þarf ég auðvitað að kveðja vini og vandamenn áður en haldið verður til landsins skoska. Eftir það er framundan nýnemavika, koma mér fyrir í nýju húsnæði, afmæli, hitta prófessorinn minn í fyrsta skipti og kynnast nýju samfélagi - spennandi tímar framundan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 28. ágúst 2007
3 vikur til stefnu
Tíminn líður hratt, á gervihnattaöld og allt það. Það er allt samt sem áður ágætt að frétta. Eftir flakk síðustu viku þá er ósköp notalegt að vera komin heim og hafa nóg að gera í vinnunni. Annars er farið að styttast ískyggilega mikið í brottför mína af landinu, 21 dagur þangað til ég fer. Er orðin örlítið stressuð yfir húsnæðisleysinu og ef e-r býr svo vel að þekkja e-n í Aberdeen sem langar að leigja mér íbúð eða leyfa mér að dvelja í nokkra daga þangað til ég finn íbúð þá má sá hinn sami hafa samband í síma eða tölvupóst Skiljanlega finnst fólki óþægilegt að leigja með e-m sem það hefur aldrei hitt og þar sem ég er jú stödd örlítið langt frá Aberdeen, þá er oggulítið langt fyrir mig að fara til að hitta það Ég hef þó fulla trú á að þetta eigi eftir að reddast og bið ykkur um að krossa a.m.k. fingur með mér
Annars fékk ég örlítið sjokk í gær þegar ég áttaði mig á hversu lítill tími er til stefnu, ekki nema þrjár helgar og þar af er Fjórðungsþingið á einni þeirra og því lítið annað gert þá helgina nema að vinna. Það lítur því allt út fyrir að ég þurfi að fara að íhuga það að pakka. Gæti verið sniðugt ekki satt? Annars er hugmyndin að fara ekki með meira út en eina tösku og einn handfarangur og senda hugsanlega einn kassa með pósti - það væri ansi vel sloppið ekki satt?
En jæja, þetta er aðeins stutt í þetta skiptið - ætlaði að vera mjög gáfuleg og tjá mig aðeins um "ástandið" í Reykjavík sem mér finnst vera örlítið útblásið og afskræmt af gúrkutíð fjölmiðla og ofríki lögreglunnar í Reykjavík ... en það verður að koma seinna. Í staðinn getið þið hlegið af þessari mynd hér fyrir neðan sem ég hef nú þegar nýtt mér við ákvörðunartöku varðandi rannsóknarverkefni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. ágúst 2007
Akstrinum lokið í bili
Þá er aksturshelginni miklu lokið og langakstri lokið í bili áfallalaust. Alls voru keyrðir um 1400 km á tveimur dögum. Við Þórunn Anna brunuðum á löglegum hraða til Reykjavíkur á föstudagsseinnipartinn og fórum beint og heilsuðum upp á Möggu frænku og sóttum einnig kassa í leiðinni sem Þórunn Anna á og þurftu að fara með norður. Við gistum hjá Hauki frænda yfir blánóttina og vöknuðum snemma á laugardagsmorguninn og brunuðum norður á Akureyri. Þar bárum við dótið hennar Þórunnar inn á "vetrarheimilið" hennar Þá voru teknir nokkrir rúntar um plássið, svona til að átta sig á staðháttum, auk þess sem helstu verslanir bæjarins voru heimsóttar.
Eftir að ég hafði fullvissað mig um að nokkuð vel færi um litlu systur brunaði ég heim á leið að nýju, alla leið á Ísafjörð. Sú ferð var með skemmtilegri ökuferðum sem ég hef farið, en þegar ég lagði af stað frá Akureyri tengdi ég Ipodinn við græjurnar og hlustaði á Stephen Fry lesa fyrir mig nýjustu Harry Potter bókina. Þegar ég kom til Ísafjarðar vel rúmum sex tímum seinna þá hafði Stephen klárað 10. kaflann. Ferðin hefði getað gengið hraðar, en eins og gengur og gerist þá stoppaði ég reglulega. Fyrst stoppaði ég í Varmahlíð og keypti mér að drekka, en ákvað að borða bara í Brú. Það fór þó svo að þar sem að flugur svæðisins ákváðu allar sem ein að ráðast á framrúðuna hjá mér þá neyddist ég til að stoppa á Blönduós og kaupa þar meira rúðupiss og klúta til að þrífa rúðuna sem var orðin gul og hættulega ógegnsæ. Næsta stopp var pylsustopp á Brú í Hrútafirði og svo var brunað í Bjarkalund þar sem ég fékk mér súpu dagsins - Ég verð enn á ný að hrósa Bjarkalundi bæði fyrir góða þjónustu og góðan mat! Þá voru nokkur stopp tekin til að taka myndir af sólarlaginu sem var einstaklega fallegt í gærkvöldi (sjá einnig fyrir neðan).
Annars fer ég aftur suður á þriðjudagsmorguninn - vinna á morgun - Fer út eftir 29 daga - styttist í þetta - meira síðar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 17. ágúst 2007
Aksturshelgin mikla
Síðustu dagar hafa verið örlítið undarlegir, skipst á skin og skúrir - eins og oft er.
Í þessum rituðu orðum er ég að bíða eftir að klukkan nálgist þrjú til að ég geti farið og sótt litlu systur í vinnuna, en við ætlum að bruna af stað til Reykjavíkur (á löglegum hraða þó) um leið og hún er tilbúin. Í Reykjavík verður stoppað stutt í þetta skiptið, keyrum af stað til Akureyrar snemma í fyrramálið en Þórunn Anna er að flytja þangað og er að fara að læra lögfræði við háskólann þar. Svo á eftir að koma í ljós hvort ég keyri aftur til baka á morgun eða hvort ég geri það á sunnudaginn og hvort ég komi við í Reykjavík á leiðinni til baka eða ekki - kemur í ljós síðar
Það verður þó stutt stopp á Ísafirði því ég kem aftur til Reykjavíkur í næstu viku til að fara í jarðarför. Hversu lengi verður stoppað í Reykjavík á eftir að koma í ljós.
Annars er ég ekki frá því að ég sé farin að hlakka til að fara til Aberdeen. Ég er reyndar enn að leita að húsnæði, en það eru ákveðnar blikur á lofti hvað það varðar og ég vonast til að íbúðarmálin skýrist strax í næstu viku. Ég steig þó stórt skref í gær þar sem þá var gengið frá flugmiðakaupum. Það ætti því að vera óhætt að gera það opinbert að ég mun fljúga til Glasgow í Skotlandi þann 18. september næstkomandi.
En nú styttist í brottför, best að henda restinni af dótinu í bílinn
Myndir og Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 9. ágúst 2007
Andlitsbók
Ég er kolfallin fyrir netsíðu sem ég rakst á fyrir nokkru.
Ég er það kolfallin fyrir henni að ég ákvað að deila henni með ykkur.
Þessi netsíða sem ég er að tala um heitir Facebook og nær því að vera alveg ótrúlega skemmtileg og áhugaverð. Ég reyndi fyrir allnokkru að nota MySpace en gafst upp e-a hluta vegna. Ég fann mig einhvernveginn aldrei á MySpace. Svo ekki alls fyrir löngu fékk ég tölvupóst frá vinkonu minni þar sem hún bauð mér að skrá mig á Facebook. Pfff... hvað er það nú hugsaði ég, en ákvað að skoða þetta betur og núna örfáum vikum seinna er ég kolfallin.
Einfaldast er að segja Facebook vera einskonar vinakerfi. Þarna skráir maður sig inn undir raunverulegu nafni og getur tengist vinum sínum um allan heim. Gott dæmi um það er að meðal vina minna á Facebook er fólk sem ég kynntist í gegnum NCF og var í raun búin að missa tengslin við, en hef nú endurnýjað þau tengsl
Annað sem er skemmtilegt við Facebook eru hóparnir. Ég er til að mynda búin að skrá mig í hópinn "MH-ingar" sem eru fyrrverandi og núverandi nemendur við Menntaskólann við Hamrahlíð. Ég er í hópnum February 17 þar sem þeir sem eiga afmæli 17. febrúar kynnast öðrum sem eiga afmæli sama dag. Ég er í hópnum Oscar Wilde for everyone þar sem rætt er um bækur Oscars Wilde og fleira honum tengt. Ég get haldið lengi áfram.
Þessir hópar sem ég sagði frá hér fyrir ofan hafa merkilegt nokk nú þegar komið sér vel fyrir mig. Eins og fram hefur komið áður þá er ég að flytja til Aberdeen. Ég var búin að fá inni á Stúdentagörðum í borginni og var eðlilega forvitin um staðinn sem ég var að flytja á. Ég ákvað því að prófa að slá inn nafninu á stúdentagörðunum inn í leitarreitinn á Facebook og viti menn, ég fann hóp af fólki sem átti það sameiginlegt að hafa búið á sömu görðum og ég hafði komist inn á. Gleði mín yfir þessu minnkaði reyndar örlítið þegar ég áttaði mig á því hvað hópurinn hét; Elphinstone Halls survivors. E-ð fannst mér nafnið á hópnum gefa það til kynna að ég þyrfti að kynna mér málið betur og reyndist það lítið mál. Ég hafði einfaldlega samband við stjórnanda hópsins í gegnum Facebook og hún gaf mér mjög ítarlegar upplýsingar um hvernig húsnæðið væri og annað slíkt. Til að gera langa sögu stutta þá er ég þessa dagana að leita mér að leiguhúsnæði á einkamarkaðnum.
Þetta var aðeins stutt lýsing á hvað felst í notkun þessarar síðu, t.a.m. sagði ég ekkert frá öllum aukahlutunum sem eru bara skemmtilegir!! Fyrir þá sem eldri eru þá er hér dæmi um hversu útbreidd þessi síða er orðin er að fyrir skömmu var þessi stórskemmtilega grein sem heitir "Old Friends on Facebook" birt í Time.
Hvað um það, Facebook er bara sniðugt tól til að hafa samband við gamla og nýja vini og ég hvet ykkur til að skoða síðuna Ef þið ákveðið að skrá ykkur þá endilega leitið mig uppi á Facebook og skráið ykkur sem vini mína
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 7. ágúst 2007
Og það varð þögn
Já, ég hef hreinlega ekki haft orku í að blogga síðustu vikuna. Flensan lagðist svona líka harkalega á mig að með örfáum undantekningum þá lá ég meira og minna í rúminu nánast alla síðustu viku, eða fram á föstudag. Ég kíkti þó á opnun Nýsköpunarmiðstöð Íslands á miðvikudaginn, gat einfaldlega ekki sleppt því. Opnun var jafnvel áhugaverðari en ég hafði átt von á. Þarna var bæði kynnt starfsemi NMÍ og svo verkefni nokkurra frumkvöðla/nýskapenda á Vestfjörðum, mjög áhugavert.
Helgin fór að sjálfsögðu í Mýrarboltann. Það var bara skemmtilegt að fylgjast með þessu og enn skemmtilegra á matnum og ballinu á sunnudaginn.
Annars er óvenju lítið að frétta af mér. Er á fullu að leita að húsnæði í Aberdeen og rannsóknarspurningu að venju. Styttist annars óðum í að ég flytji út - ca 6-7 vikur
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)