Færsluflokkur: Bloggar

Komin heim á ný

Þá er ég komin heim á ný eftir yndislega dvöl á Hesteyri.  Nældi mér reyndar í hálsbólgu og kvef fyrir norðan, en ég krosslegg bara fingur og vona að það gangi yfir hratt og vel. 

Dagarnir á Hesteyri liðu alltof hratt.  Mamma og pabbi voru í gönguferðum alla daga með gönguhóp á meðan ég tók því rólega.  Fyrsti dagurinn fór að hluta til í að lesa nýjustu Harry Potter bókina - var mjög ánægð með hana og skil sátt við Harry - en seinni hluta dags labbaði ég á móti hópnum sem var að koma frá Aðalvík, labbaði rétt upp á Sléttuheiðina þar sem ég hitti þau og snéri þá til baka og labbaði með þeim heim á Hesteyri.

n670702259_226118_2844Næsta dag á eftir var labbað í rólegheitunum inn á Heklu (Stekkeyri) þar sem við skoðuðum gömlu verksmiðjuna.  Á leiðinni til baka var gengið upp á Höfða (skylduganga eins og gangan inn á Heklu). 

n670702259_226176_8786Þriðja daginn gekk hópurinn yfir í Miðvík.  Ég rölti hins vegar um svæðið - gekk upp á Höfða aftur og þar fyrir ofan.  Naut þess að vera ein í náttúrinni.  Hitti meðal annars lóu sem hafði mjög gaman af að láta taka myndir af sér Wink 

Í gær var síðan heimför.  Við mamma nýttum þó góða veðrið um morguninn og gengum upp fyrir ofan húsin í áttina að Aðalvík, en þar hefur leiðinda lúpína tekið sér bólfestu, okkur til mikillar skelfingar.  Vopnaðar hníf og plastpoka réðumst við á lúpínuna og fjarlægðum fræin.  Eins og lúpínan getur verið falleg og allt það n670702259_226213_7955þá á hún einfaldlega ekki heima í náttúrunni á Hesteyri (eins og þið getið séð á myndunum).  Svo var öllu pakkað niður og húsið þrifið áður en brunað var heim.  Þegar heim kom skelltum við systkinin okkur í bíó á Harry Potter and the Order of the Pheonix - hin ágætasta ræma.

Hvað um það, er að reyna að hlaða inn myndunum sem gengur e-ð hægt þannig að þið verðið bara að fylgjast með - myndirnar koma seinna í dag ef allt gengur vel Smile

Update - Myndirnar eru komnar á netið.  Þær má sjá hér og hér.


Sumarfrí og smá nöldur

Jæja, þá styttist í að haldið verði norður á Hesteyri.  Næsta blogg kemur væntanlega ekki fyrr en á mánudag og þá vonandi ásamt fullt af myndum úr ferðinni Smile

Stefnan hefur verið sett á að leggja af stað upp úr hádegi - best að drífa sig heim að pakka.

Verð annars að nöldra smá.  Ég pantaði bók á Amazon um daginn og var að sækja hana á pósthúsið áðan.  Á pósthúsinu þurfti ég að greiða 573 kr.  Sundurliðun gjalda var eftirfarandi:

Ö Virðisaukaskattur 123,00
M Tollmeðferðargjald 450,00

Sem sagt - þurfti að borga 123 kr. fyrir innflutninginn á bókinni en svo 450 kr. fyrir að láta reikna það út.  Finnst engum öðrum það hálf kjánalegt?  Það væri alveg spurning um hvort ekki væri að taka upp e-r viðmið þannig að ef virðisaukaskatturinn er lægri en tollmeðferðargjaldið þá falli hann niður?

Þá er ég laus við pirringinn yfir þessu Wink

Vona að þið hafið það gott, hvort sem er í vinnu, skóla eða sumarfríi - endilega bankið upp á ef þið eigið leið á Hesteyri næstu daga Happy


Sumarfrí sumarfrí - ástir og ævintýr

... eða að minnsta kosti e-ð þannig Halo 

Ég er núna komin á það stig að allar frumur líkamans eru farnar að þrá það að komast í sumarfrí.  Það er reyndar mjög gaman í vinnunni og allt það, en stundum verður maður einfaldlega að komast í frí. 

Ég fann það til að mynda mjög skýrt og greinilegt í morgun hvað það er mikilvægt að fá (þó ekki sé nema) helgarfrí.  Þrátt fyrir fögur fyrirheit um ævintýri og aðgerðir um helgina þá fór það svo að ég var að vinna alla helgina á Gamla gistihúsinu - aðeins að hlaupa í skarðið fyrir mömmu og pabba sem skruppu í Kópavoginn. 

Mér finnst reyndar ósköp gaman og lítið mál að vinna á gistihúsinu, hitta mann og annan og allt það.  En mikið fannst mér erfitt að vakna í gærmorgun kl. 6.15 til að fara og útbúa morgunmat fyrir gestina.  Ekki bætti úr skák að rétt þegar ég var loksins að sofna á laugardagskvöldinu þá áttaði ég mig skyndilega á því að ég hafði gleymt brauðum morgundagsins.  Þar sem þetta var síðasta hugsun fyrir svefn þá fékk ég auðvitað martröð þar sem ég hafði klúðrað morgunmatnum algerlega og valdið miklum vonbrigðum og vandræðum.  Ég vaknaði upp í svitabaði og ætlaði varla að þora niður á gistihús um morguninn að ótta við að martröðin hefði verið fyrirboði.  Það var auðvitað ekki svo og tókst morgunmaturinn með miklum sóma, þó ég segi sjálf frá Cool

moar_3En hvað um það.  Langþráð sumarfrí er framundan.  Stefnan er sett á Hesteyri á miðvikudaginn n.k. og er ætlunin að stoppa fram á sunnudag.  Reyndar er veðurspáin e-ð að stríða okkur - spáir kólnandi veðri og rigningu - en við látum það ekkert á okkur fá.  Hugmyndin er að ganga e-ð um svæðið auk þess sem ég er að vonast til að hann Harry vinur minn frá Englandi sláist í för með mér Wizard  

Ef þið eigið leið norður í vikunni þá endilega bankið upp á hjá mér að Mó(um) á Hesteyri.


Dæmi um neikvæðan fréttaflutning af landsbyggðinni

Ég hreinlega get ekki orða bundist. 

Hvað í ósköpunum kemur það málinu við að þyrla sem nauðlenti á Grænlandsjökli hafi hugsanlega verið hluti af þeim hópi þyrlna sem fékk undanþágu til að fljúga frá Ísafirði í fyrrakvöld?!!? Angry

Í fyrsta lagi þá kemur þá málinu hreint ekkert við hvaðan e-r flýgur hvort hann lendir í slysi eða ekki - ekki eins og þau geri boð á undan sér?!  Þvi er fyrirsögnin hreinlega meiðandi - eins og því sé að kenna að þyrlan hafi fengið sérstakt leyfi til brottfarar frá Ísafirði að hún hafi síðan nauðlent?  Ég spyr - hefði verið skrifað um þetta á sama hátt ef þyrlan hefði farið frá Reykjavíkurflugvelli eða Akureyrarflugvelli!?  Fyrirsögnin hefði geta t.d. verið:  "Þyrla sem flaug frá Íslandi (jafnvel Ísafirði) nauðlenti á Grænlandsjökli"

Í öðru lagi - Fyrirsögnin er líka fáránleg út frá því að samkvæmt fréttinni þá hefur Flugmálastjórn ekki hugmynd um hvort um sé að ræða þyrlu úr þeim hóp sem fékk leyfi til að fljúga frá Ísafirði eða hvort þetta sé e-r allt önnur þyrla sem hefur jafnvel aldrei komið á Ísafjörð: „ekki er hægt að lesa úr þeim upplýsingum sem Flugmálstjórn hefur hvort um sömu fisvél er að ræða og var hér á landi með hópnum.“

Í þriðja lagi og að lokum er auðvitað alveg hreint út í hött að Ísafjarðarflugvöllur eða Þingeyrarflugvöllur (ef því er að skipta) séu ekki skilgreindir millilandaflugvellir - þó ekki væri nema bara fyrir Grænlandsflugið - héðan er styst og þ.a.l. ódýrast að fljúga milli Íslands og Grænlands og ég veit það að Flugfélagið notaði völlinn hér talsvert fyrir gullgrafaraflugið og já, allt út af því að það er endalaust verið að spara hjá ríkinu þá var gerð smá reglugerðarbreyting sem veldur því að aðeins fjórir flugvellir á landinu mega sinna millilandaflugi?!

ARGGARG ég er reið út í ríkið fyrir þessa kjánalegu reglugerðarbreytingu og ég er reið út í Morgunblaðið fyrir að skrifa svona kjánalega og hreint og klárt ýkta fyrirsögn sem gerir ekkert nema að gefa ranga mynd!

                                                       758972     

 

UPFFÆRSLA: Nú er komið í ljós að þyrlan sem brotlenti á Grænlandsjökli flaug ekkert frá Ísafirði - heldur frá Reykjavík - http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1280749  og hvernig er fyrirsögnin á þeirri frétt?! Loftfar brotlendir á Grænlandsjökli!

 


mbl.is Þyrla sem nauðlenti fékk sérstakt leyfi til brottfarar frá Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

I'm walkin' on sunshine

n670702259_196691_8429Já, nokkuð góð setning til að lýsa veðrinu og hvernig það hefur verið á Ísafirði í sumar Grin  Sól dag eftir dag eftir dag - Fór í tvo göngutúra, annan upp á skíðaveg og inn í skóg í síðustu viku og í dag labbaði ég með Þórunni Önnu og Bríeti Ruth upp í Naustahvilft.  Alltaf gaman að fara í góðan göngutúr, sérstaklega í góðu veðri.

Annars er ósköp lítið að frétta af mér - búið að vera heilmikið að gera í vinnunni, sem er alltaf gaman.  Styttist í sumarfrí samt.  Stefnan er sett á Hesteyri í þarnæstu viku, 25. júlí nánar tiltekið, miðvikudag fram á sunnudag. Það verður vonandi gott veður eins og alltaf á Hesteyri og ég held að málið sé að taka nokkra öfluga göngutúra um svæðið.  Svo er það auðvitað Verslunarmannahelgin hér á Ísafirði í þetta skiptið - Mýrarboltinn og fullt af fólki í heimsókn - held að Ísafjörður verði algerlega málið þetta árið.

Meira síðar.

Myndir úr göngutúrunum má finna hér.

 


Samúðarkveðjur

Ég vil votta fjölskyldu og vinum Einars Odds samúðar vegna fráfalls hans.

 


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klukkuð

Já, ég var klukkuð af Bryndísi Friðgeirs og það þýðir víst ekkert að skorast undan því Halo

Hér eru því 10 staðreyndir um mig:

1. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að elda

2. Er ekki með eldhús

3. Borða ekki fisk

4. Býð spennt eftir síðustu Harry Potter bókinni

5. Flyt til Skotland í september

6. Vakna alltaf við Morgunvaktina á Rás 1 á morgnanna

7. Langaði til að flytja til lands með hlýju loftslagi en endaði í Skotlandi

8. Ég er orðinn forfallinn Facebook notandi

9. Mig langar ekkert að flytja frá Ísafirði

10. Ég er í bölvuðum vandræðum með að ákveða rannsóknarspurningu og er öll aðstoð við það vel
      þegin Smile

Til að viðhalda klukkinu þá klukka ég Hrefnu Katrínu,  Ólínu og Benna.

Meira síðar


Sumarið er tíminn

Þetta sumar hefur verið alveg hreint ótrúlegt - veðurfarslega séð.  Mér líður eiginlega eins og ég sé komin aftur á Hawaii þar sem eins og þar þá hefur veðrið verið alveg ótrúlega stöðugt.  Dag eftir dag vakna ég við það að sólin gægjist inn um gluggann. 

Júlí-065Ég tók því nokkuð rólega um helgina - en veðrið á aðfaranótt sunnudagsins var svo ótrúlegt að ég stóðst ekki freistinguna og tók fram myndavélina.  Litirnir í skýjunum, lognið á Pollinum og birtan á fjöllunum - Að upplifa þetta gerir alla hugsun svo skýra og skilningurinn á því af hverju ég vil búa hérna á Ísafirði verður svo endalaus.  Fleiri myndir má sjá hér.

Annars styttist sumarið óðum og þá í það að ég flytji frá Ísafirði Shocking  Stefnan er sett til Aberdeen í Skotlandi í lok september - býst við að ég fari í kringum 25. okt - á samt eftir að skoða það betur.  Síðustu dagar hafa farið í það að skrá mig í skólann - þ.e. inn í kerfið - fá netfang hjá skólanum o.fl. slíkt Smile  Skrýtið að hlakka svona mikið til e-s en samt hlakka ekkert til að fara.  Verst að geta ekki verið bara á Ísafirði í þessu námi, spurning um að tékka á fjarnámsmöguleikum Tounge 

Nei, ég er nú halfpartinn bara að grínast með þetta, hlakka mikið til að prófa að búa erlendis - kynnast nýjum siðum og nýju fólki.  Svo er líka alltaf yndislegt að koma aftur heim.  Hef þessa dagana mestar áhyggjur af því að skilja ekki orð af skoskunni sem og því að finna húsnæði sem gengur svona upp og niður - mestmegnis upp þessa dagana, er að vonast til að fá íbúð hjá Ardmuir sem ég hef fengið upplýsingar um að séu mun betri en stúdentagarðarnir.

Jæja, nóg í bili - meira síðar


Ekkert nýtt þarna...

Ég verð að viðurkenna það hreint og klárt að ef þetta er allt og sumt sem ríkisstjórnin ætlar að gera þá hef ég gríðarlegar áhyggjur af þeim svæðum sem fara verst út úr skerðingunni t.a.m. Vestfjörðum.  Ég hlustaði, eins og líklega flestir sem höfðu tækifæri til, með athygli á upplestur Ingibjargar Sólrúnar á hinum svokölluðu mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar á kvóta.  Vonbrigði í níu liðum og ekkert nýtt sem verið er að leggja til. 

  1. Tímabundin aukaframlög ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
    - Flott mál - en munu sveitarfélögin hafa e-r tækifæri til að nýta þessa peninga fyrir íbúana - þeir munu fara í að greiða niður skuldir sveitarfélaganna (sem margar hverjar eru við ríkið) og lækka vexti.  Spurning hvort ekki hefði mátt athuga að ríkið einfaldlega felldi niður skuldir sveitarfélaganna sem verst standa við ríkið - gefið þeim tækifæri til að byrja upp á nýtt.  Við það tækifæri mætti t.d. endurgreiða sveitarfélögunum peningana sem þau hafa verið að greiða ríkinu vegna skulda félagslega íbúðakerfisins, kerfis sem ríkið setti á en sveitarfélögin þurftu að bera.
    - Hér eins og í hinum átta tillögunum er um að ræða verkefni sem er ekkert nýtt - nefnd hefur verið starfandi í nokkurn tíma, viðræðunefnd sveitarfélaga og ríkisins - ekkert nýtt hér.
  2. Styrking Byggðastofnunar
    Flott mál - Byggðastofnun er í raun ekkert vitlaustasta hugmynd í heimi og margt virkilega gott sem starfsfólk hennar hefur verið að vinna, en gállinn á henni hefur því miður að stundum hefur stofnunin verið verri en versti banki.  Eins líkt og með Hafró þá hefur komið fyrir að ekki hefur verið hlustað á tillögur sérfræðinga Byggðastofnunar.  Eins - ekki ný hugmynd, var þetta ekki í stjórnarsáttmálanum?
  3. Veiðigjald vegna þorskveiða fellt niður
    Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel til að geta dæmt mjög nákvæmlega áhrif þessa - en þetta er a.m.k. engin sértæk aðgerð fyrir sjávarbyggðirnar út á landi - en gæti virkað ágætlega - ef e-r þekkir betur til má viðkomandi endilega kommenta.  Mér skilst þó að hér sé einfaldlega um að ræða skatt sem er felldur niður - styrkur við alla útgerð, líka á svæðum sem eru ekkert í vandræðum og koma ekki til með að vera það.
  4. Unnið að því að efla grunnstoðir atv.lífs á Vestfjörðum og styrkja samkeppnisstöðu í samræmi við tillögur Vestfjarðanefndarinnar.
     - Var ekki búið að lofa því að gera það?  Eða átti aldrei að gera það? 
  5. Sérstök átaksverkefni til að treysta atvinnuuppbyggingu með tilliti til atvinnumála kvenna - endurmenntun, frumkvöðlastarfsemi, starfsþjálfun og sérstök átaksverkefni atvinnuþróunarfélaga.  Sérstakt átak í flutningi opinberra starfa og fjölgun starfa án staðsetningar.
    - Já, gott og blessað - reyndar ekkert nýtt hér heldur - reyndar hafa mörg átaksverkefni í atvinnumálum kvenna virkað flott - En hér vantar óneitanlega nánari útfærslur.
  6. Gömlu góðu samgöngumálin.
    - Það var nú minn skilningur að nú þegar hefði verið lofað að flýta vegaframkvæmdum og e-ð rámar mig í að einhver stjórnmálamaðurinn hafi verið að lofa að hraða uppbyggingu fjarskiptaþjónustunnar, einkum hvað varðaði háhraðatengingarnar - er það misminni hjá mér?  Hvað varðar sérstakt átak í viðhaldi opinberra bygginga - hefur ríkissjóður sem sjaldan hefur staðið jafn vel ekki verið að sinna viðhaldi bygginga sinna?

Hvað varðar tillögur 7., 8. og 9. þá skil ég ekki að þetta hafi ekki löngu löngu verið gert og jákvætt að loks eigi að fara í þessa vinnu - en er þetta mótvægisaðgerð fyrir byggðirnar?

Það sem skar þó e.t.v. mest í augun var skortur á tímasetningum og nánari útfærslum, þ.e. kostnaðartölur, hvar á að flýta samgöngum o.s.frv.  Ég vona þó að þetta séu aðeins fyrstu drög og strax í næstu viku komi nánari útfærsla og staðreyndir á borðið - hvað á að gera hvenær og hvar.  Eins er ekkert minnst á gengið, sem LÍÚ segir þó vera það eina sem gæti "mildað" áfallið?!

Eins er mér pinku brugðið því hvergi er minnst á mennta- og menningarmál sem forsætisráðherra kom þó inn á í málflutningi sínum.  Hvergi er talað að efla háskólamenntun - sem þó hefur verið sýnt fram á að hefur mikil margföldunar áhrif og hvar er menningin í þessum tillögum?

Því miður er ekkert í þessum tillögum gerir sjávarútveg/sveitarfélög á Vestfjörðum betur í stakk búinn til að lifa þetta tímabil af, frekar en annarsstaðar á landinu.  Munurinn hér liggur hins vegar í því að þegar kreppir að hjá sjávarútveginum (sem skapar flest störfin þó þeim hafi fækkað) þá flytur fólkið í burtu og leita að vinnu annars staðar.  Það vita það allir sem vilja vita að úr því sem komið er, viðvarandi fólksflótti síðustu 20 ár og 200 störf farin frá áramótum, mun frekari fækkun hafa mun alvarlegri áhrif umfram önnur svæði.

Vonbrigði ársins?


mbl.is Boða bæði skammtíma- og langtímaaðgerðir vegna skerðingar á kvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan eykst ...

ég er hrædd um að ég sé ekki sú eina sem er spennt yfir að heyra hvað ríkisstjórn vor hefur fram að færa á þessum fundi.  Finn fyrir spenningi - þessi litli fundur getur breytt öllum forsendum lífsins hér fyrir vestan ...

Meira síðar


mbl.is Ákvörðun um aflaheimildir kynnt á blaðamannafundi klukkan 10:30
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband