Minning um frænku

Síðustu vikur hafa verið vægast sagt erfiðar, en 9. janúar s.l. lést systir hans pabba.  Ég var því nokkuð lengi í Reykjavíkinni en kom heim í síðustu viku, sem fór í það að vinna upp vinnu og nám sem sat á hakanum á meðan ég var fyrir sunnan.

Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið, datt í hug að deila henni með ykkur.

,,Magga frænka farin.  Ég næ eiginlega ekki utan um hugsunina ennþá.  Engin Magga í Birkigrundinni. Enginn matur hjá Möggu í Reykjavíkurferðunum.   Þungt fyrir brjósti. 

Þegar ég sest niður og reyni að setja niður nokkur orð til að minnast Möggu frænku er margt sem kemur upp í hugann:  Hlátur hennar og lífsgleði, umhyggja og ákveðni.  Það var svo aðdáunarvert með hana Möggu að það var alveg sama hversu mikið var að gera, þá gaf hún sér ávallt tíma til að sinna fjölskyldu sinni, vinum og áhugamálum.

Ég var ein þeirra fjölmörgu sem voru svo heppnir að eiga ávallt stað í Birkigrundinni, hvort sem það var gisting eða matur, stuðningur eða hvetjandi orð.  Raunar var það svo að Magga gekk mér hálfpartinn í móðurstað meðan ég var í námi í borginni og mat ég þess mikils að eiga þau fjölskylduna að.  Það var alveg sama hvenær ég hringdi, alltaf fékk ég boð í mat og aldrei brást að félagsskapurinn væri góður.   Það var alltaf líf og fjör á heimilinu, Magga hafði alltaf skoðanir á hlutunum og var aldrei leiðinlegt að ræða málin við hana.  Það var svo einstakt við Möggu að maður gat alltaf treyst á að hún væri hreinskilin, hún fór aldrei í felur með hlutina.  Enda var ekki sjaldan sem ég hringdi í Möggu frænku til að ræða um lífið og tilveruna og eins kom fyrir að hún hringdi, einfaldlega til að fylgjast með hvernig lífið hjá okkur gengi og sífelld hvatning hennar hefur verið mér mikils virði.

Elsku Magga, ég minnist þín með hlýju í hjarta.  Hversu þakklát ég er að hafa fengið að eiga þig sem frænku.  Þú varst einstök manneskja og alltaf til staðar, alveg sama hvað var.  Ég mun ávallt muna góðmennsku þína og verður heimili mitt ávallt opið drengjunum þínum.  Hugurinn er fullur af minningum sem munu lifa áfram.  Þú varst hetjan mín, fyrirmyndin mín og ég mun hafa minningarnar um þig, dugnað þinn og hlýju áfram sem leiðarljós í lífi mínu.  Þú munt alltaf vera í huga mínum og ég mun ávallt sakna þín.

Elsku Oddur Björn og Siggi, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og bið Guð að styrkja ykkur í þessari miklu sorg.Albertína Friðbjörg."

3228587758_4698fc81b5

3227735345_295faf73f4

 3228587634_b47e32323f

3228587482_13f4511fb1

Annars er lítið að frétta ... er bara á fullu að læra og vinna og já, eins og allir aðrir að fylgjast með fréttum.

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég votta þér og fjölskyldu þinni mína einlægu samúð

Sigrún Jónsdóttir, 26.1.2009 kl. 12:53

2 identicon

Þetta er falleg minningargrein. Farðu vel með þig. Heyrumst svo fljótlega.

Kristrún (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 15:45

3 Smámynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir

elsku elsku Albertína

votta þér og fjölskyldu þinni innilega samúð mína - falleg orð til góðrar frænku

Ester Rut Unnsteinsdóttir, 26.1.2009 kl. 21:15

4 identicon

Sæl Albertína og fjölskylda! Ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð. Hún frænka þín veitti mér mikinn stuðning þegar ég lá mjög veik á sjúkrahúsi í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Allir töluðu um hversu frábær hún væri. Allavega veitti hún mér dýrmætan stuðning. Ekkert fær bætt svona sáran missi nema falleg minning og kemur hún svo sterkt fram í greininni þinni hér að ofan.

Kær kveðja, Laufey

Laufey Jónsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband