Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 8. nóvember 2008
Spítalavist og botnlangavesen
Jamm og jæja!
Þessi Eistlandsferð fór aðeins öðruvísi en planað var
Í þessum skrifuðu orðum þá ligg ég í sjúkrahúsrúmi á sjúkrahúsinu í Pärnu. Er með vökva í æð og "stóran" skurð á maganum (hef reyndar ekki séð skurðinn, finn bara fyrir honum og sé umbúðirnar)
Til að gera langa sögu stutta þá fór ég að finna fyrir óþægindum á fimmtudagskvöldið. Fór bara snemma að sofa og gerði ráð fyrir að ég yrði orðin góð næsta dag. Morguninn eftir var ég enn með verki, en þar sem ég vildi ekki vera með neitt vesen þá ákvað ég að fara með í kynnisferðina um Eistland sem hópurinn var að fara í. Það fór þó ekki betur en svo að verkurinn versnaði bara. Eftir nokkra stund ákvað ég að snúa við til Pärnu þar sem við vorum eiginlega bara út í sveit og ef þetta væri e-ð meira en bara magaverkur þá vildi ég ekki vera e-r út í sveit.
Nema hvað ...
Það var auðvitað bara ein rúta til Pärnu frá Valga/Valka (bænum sem ég var í) og sú rúta hafði farið um morguninn. Gestgjafar okkur í Valga/Valka fundu það þó út að það færi rúta kl. 17.20 frá næsta bæ til Pärnu, en næsti bær var sum sé 30 km frá Valga/Valka. Ég fór því með gestgjöfunum í heimsókn í vinnuna til þeirra og kynnti fyrir þeim Háskólasetrið og lífið á Ísafirði, en þau hafa mikinn áhuga á að stofna háskólasetur í Valga/Valka Ég fór svo á bæjarskrifstofuna og hitti þar mann sem svo gaf mér far yfir í þennan næsta bæ. Þar þurfti ég að bíða í svolitla stund eftir rútunni sem fór til Pärnu. Í rútunni gekk allt vel, nema hvað að verkurinn versnaði og versnaði og versnaði og versnaði og þegar við vorum loksins komin til Pärnu labbaði ég á hótelið (sem var í sömu götu) og fór að hágráta þegar ég loksins kom þangað, algerlega búin á því og einfaldlega að drepast úr verkjum. Konan í afgreiðslunni reyndist alveg hreint stórkostleg. Hún hringdi á sjúkrabíl fyrir mig og fór svo með mig upp í herbergi og lét mig leggjast fyrir meðan við biðum eftir sjúkrabílnum. Við það tækfæri hringdi ég heim til Íslands og lét vita af mér. Þegar sjúkrabílakonurnar komu var ég enn meira búin á því, hristist og skalf, hágrét og já, leið yfirhöfuð algerlega vonlaust. Þær voru þó svo yndislegar þessar sjúkrabílakonur, gáfu mér sterkt og gott verkjalyf beint í æð og fóru með mig á spítalann.
Á spítalanum tóku á móti mér fleiri konur og þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar mínar um að mér liði betur (verkjalyfið að tala) þá neituðu þær að hleypa mér í burtu (sem betur fer kom í ljós). Það var tekin þvagprufa og blóðprufa, röntgen og ómskoðun af maganum. Í blóðinu kom svo í ljós að það var mikil bólga í líkamanum og niðurstaðan var að ég væri með botnlangabólgu. Mér var því gefinn kostur á því að velja. Aðgerð strax eða næsta morgun. Eftir að hafa hringt heim til Íslands í Möggu frænku urðum við sammála um að aðgerð strax væri líklega besti kosturinn. Þá komst ég að því að þegar læknirinn hafði sagt strax, þá hafði hún meint strax. Tvær hjúkrunarkonur komu og bjuggu mig undir aðgerðina og svo var brunað með mig inn á skurðstofu. Mér til mikls léttis þá var skurðstofan bara alveg eins og skurðstofurnar heima (ekki að ég hafi búist við öðru) og svo sem var enn skemmtilegra var að það voru bara konur í aðgerðinni (verð eiginlega að nefna að það höfðu engöngu verið konur sem höfðu séð um mig allan tímann, allt frá sjúkrabílnum og í aðgerðina)
Nema hvað, svo kom svæfingalæknirinn og gaf mér súrefni og sprautaði í mig fullt af lyfjum ... Það næsta sem ég man er að einhver sagði; Albertina, you have to wake up now. Og ég svaraði e-ð á þá leið að það væri bara vitleysa, ég ætlaði að sofa áfram.
Næsta morgun rankaði ég svo við mér í sjúkrahúsrúmi með sársauka í skurði á maganum. Skömmu síðar kom skurðlæknirinn til mín og sagði að það hefði verið gott að við hefðum skorið strax því að botnlanginn hefði verið orðinn 15 cm (er yfirleitt um 7 cm samkvæmt doktor.is) og já, hann hefði líklega sprungið um nóttina Svo tóku við margar símhringingar að láta vita að ég hefði lifað aðgerðina af, hringja í tryggingarnar og já, vera hálfdrusluleg eftir aðgerðina. Er búin að vera með stanslaust vatn í æð þangað til bara núna fyrir 5 mínútum en ég er öll að hressast og vaknaði bara mikið hressari í morgun (fékk líka þá loksins að borða).
Þannig að já, í staðinn fyrir að kynnast Eistlandi og uppbyggingu þeirra á landsbyggðinni þá hef ég kynnst eistneska heilbrigðiskerfinu mjög ýtarlega og gef því mína hæstu einkunn - þó ég verði að viðurkenna að það var muuuuun betra að liggja á sjúkrahúsinu heima. Hér hefur t.d. enginn komið og lagað fyrir mig lökin og koddana eða passað að það fari vel um mig en þau hafa samt sem áður hugsað rosa vel um mig
Þannig að já, nú ligg ég bara í sjúkrahúsrúminu og blogga - erum að bíða eftir að læknirinn komi og gefi mér e-a hugmynd um hvenær ég fæ að fara heim ... get satt að segja ekki beðið!! Er að vonast til að fá að fara heim á morgun eða í síðasta lagi á mánudaginn, en sjáum til - er víst ekkert grín að ferðast með stóran skurð á maganum.
En já, gaman af þessu
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Keflavík - Osló - Tallin - Pärnu
Það var nokkuð hressilegt ferðalagið sem við skólasysturnar hófum á mánudagsmorguninn síðasta. Dagurinn hófst með sturtu og síðustu pakkningunum kl. fjögur um morguninn (nóttina??) en svo var haldið á BSÍ þar sem við tókum flugrútuna til Keflavíkur kl. 5.00 Þaðan tókum við flugið og lentum í Noregi nokkru síðar. Þar sem við höfðum 9 tíma á milli fluga var ákveðið að drífa okkur inn í borgina og hitta Siggu Gísla Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði komið til Noregs og ég féll alveg fyrir Osló. Sigga reyndist vera hinn besti leiðsögumaður og sáum við nokkuð góðan hluta miðborgarinnar. Meðal þess sem við fórum að skoða var nýja óperuhúsið og verður að viðurkennast að það var nokkuð tilkomumikið!
Venju samkvæmt tók ég nokkrar myndir ...
Fleiri myndir á flickrinu.
Um kvöldið yfirgáfum við svo Osló og flugum með Estonian Air til Tallin í Eistlandi. Ferðinni var þó ekki lokið þar, en námskeiðið sem ég er á (já, btw ég er s.s. á námskeiði í Eistlandi (Strategies for Local and Regional Development in the Northern Periphery, Resiliant regions and people, transformation and adaptation of local economies). Á flugvellinum í Tallin beið leigubíll eftir okkur (vorum á þessu stigi orðin 7). Þetta var sex farþega bíll með það sem leit út fyrir að vera pinkulítið skott. Það reyndist þó ekki vera svo og okkur tókst að troða okkur og farangrinum öllum í bílinn Þá tók við eins og hálfstíma akstur til Pärnu, sem er á vesturströnd Eistlands. Það verður að viðurkenna að ég var orðin frekar mikið þreytt þegar við komum loksins á hótelið ... en sofnaði auðvitað ekki fyrr en seint og síðarmeir og var gærdagurinn því frekar mikið þreyttur Við lærðum þó helling í gær og lítur út fyrir jafnvel enn meiri lærdóm í dag. Á morgun hefst svo ferðalag okkar um landið og komum við aftur til Pärnu á laugardaginn, en þá hefst hópavinna og mikið fjör (eflaust)
Annars er það bara málningavinna og parketlagning þegar ég kem heim ... kann e-r að leggja parket sem langar að hjálpa mér??
En já, kennarinn heimtar athygli ...
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 1. nóvember 2008
Allt að gerast ... þó ekki lognið
Það hefur bókstaflega allt verið að gerast í mínu lífi undanfarna viku eða svo ... raunar svo mikið að ég hreinlega varð að halda mig í burtu frá blogginu um tíma, því allar líkur voru á að ég myndi missa e-ð út úr mér og snemma.
Akkúrat núna sit ég í Turninum og bíð eftir að vindinn lægi svo ég geti farið suður með flugi ... ætla að skreppa á smá námskeið í Eistlandi Raunar ætla ég þó fyrst að stoppa (vonandi ef það verður e-a flogið) aðeins í Reykjavík þar sem ég ætla að kaupa ýmislegt sem þarfí nýju íbúðina mína Jább, þið lásuð rétt ... var að kaupa mér mína fyrstu íbúð á þessum síðustu og verstu Keypti voða sæta og skemmilega íbúð í Mjallargötublokkinni, sem þarf þó að gera töluvert mikið við, en útsýnið er tvímælalaust þess virði Það er því töluverð málningavinna, partketlagning og annað slíkt framundan hjá mér ...
En nóg um það. Ég var þó langt frá því að vera aðgerðalaus þó ég stæði í þessu ... skellti mér tvisvar sinnum á skíði og í göngutúr í síðustu viku! Eins og þeir sem eru hér fyrir vestan vita, þá var hreint út sagt yndislegt veður ... páskaveður hreinlega Myndavélin var auðvitað með í för!
Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega bara hálf fúl yfir að snjórinn sé farinn ... það birtir óneitanlega þegar hann er
Annars hefur lífið bara snúist um nám og kennslu að venju! Tók tvær myndir á leið til Bolungarvíkur í gær ... reyndar skemma ljósastaurar aðra þeirra svolítið ... en fjallið er flott!
Jæja, verð víst að klára að pakka og annað slíkt svona ef þeir skyldu ákveða að fljúga Set inn myndir og fréttir frá Eistlandi ef ég kemst í netsamband.
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. október 2008
Ljósmyndakast og fleira
Já, eins og ótal margir tók ég þátt í Ljósmyndakasti Krumma á Vetrarnóttum og gekk bara merkilega vel miðað við að ég tek yfirhöfuð ekki myndir af fólki En ég var svo heppin með fyrirsætur og var eiginlega ekki möguleiki á öðru en að heppnast vel, þökk sé þeim Ég tók sum sé myndir af Dóru Hlín og Brynju Huld og lenti svo auðvitað í mestu vandræðum með að velja mynd (mátti bara senda inn eina) ...
Eftir miklar vangaveltur þá valdi ég að senda inn þessa:
Kallaði hana "Fyrsti vetrardagur" ... mjög ánægð með hana þó ég segi sjálf frá Þetta var þó engan veginn auðvelt val því myndirnar af Brynju Huld heppnuðust líka ofsalega vel ... hér eru nokkrar af henni ...
Myndirnar úr Ljósmyndakastinu er hægt að skoða í Hamraborg. Ef þið eruð ekki búin að fara og skoða þá skora ég á ykkur að gera það sem fyrst, því vá hvað það eru margir góðir ljósmyndarar á svæðinu
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 17. október 2008
Ljósmyndakast Krumma
Tók "stóra" ákvörðun í gærkvöldi - ég ætla að taka þátt í Ljósmyndakasti Krumma sem haldið er í tengslum við Veturnætur! Hvet ykkur til að taka þátt líka - helt þetta verði mjög gaman og auðvitað því fleiri því skemmtilegra ekki satt??
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 12. október 2008
Fundin
Helgin fór að mestu í afslöppun, lestur og kennslu en það var staðarlota í Frumgreinanáminu. Á föstudagskvöldið fór ég og hitti frumgreinanema og fleiri á bjórkvöldi Það var mikið grín og mikið gaman, en svo var haldið á Edinborgarhúsið á tónleika með TLX, Bloodgroup og Skátum. Það var virkilega gaman! Mikið dansað, mikið spjalla og já, bara heilmikið fjör Hitti þar meðal annars gamlan skólafélaga úr háskólanum, sem var virkilega gaman og já, fullt af fleira skemmtilegu fólki
Svo var það kennsla kl. 09.15 á laugardagsmorguninn sem var reyndar stórskemmtilegt sömuleiðis, en svo voru það bara rólegheit. Var búin að vera með kvefóþægindi og hósta alla vikuna sem höfðu ekki skánað við djammið á föstudagskvöldið þannig að ég tók því bara rólega og las greinar fyrir skólann upp í sófa Fór svo í afmæli í gærkvöldi, virkilega gaman og þvílíkt góður matur að venju.
Annars er maður farinn að hafa pinku áhyggjur af þessu blessaða "ástandi" Miðað við það sem maður heyrir fyrir sunnan þá er ég nú samt fegin að búa hérna fyrir vestan þar sem fasteignaverðið hefur verið lágt lengi og launin að meðaltali lægri en fyrir sunnan. Þetta er því kannski (a.m.k. ekki enn) jafn mikið sjokk hér og fyrir sunnan - þó þetta sé auðvitað mjög slæmt. Verð nú samt deila því með ykkur að ég heyrði tvo unga stráka (ca. 8-10 ára) spjalla saman í síðustu viku. Annar þeirra hafði fengið gefins 2000 krónur frá frænku sinni og var að segja vini sínum frá því. Sá tjáði hinum hvað honum þætti hinn nú vera heppinn aðe eiga heilar 2000 krónur, en bætti svo við ,,Svo verðurðu bara að fara í bankann og kaupa evrur, annars geturðu ekki keypt neitt." Held það sé nokkuð ljóst að börnin fylgjast betur með en við höldum ... Langar reyndar að nýta tækifærið og hvetja ykkur lesendur góðir sem eigið börn til að setjast niður og ræða stöðu mála við þau (þ.e. ef þið hafið ekki gert það fyrir löngu sem ég geri ráð fyrir að þið hafið flest gert ) því börnin fylgjast betur með en við höldum oft en skilja oft ekki það sem þau heyra
Hmm.. hvað fleira í fréttum. Jú, ég skrapp í göngutúr inn í skóg í dag. Veðrið var svo indælt e-ð, fyrir utan kuldann En með því að klæða mig vel þá átti ég yndislegan tíma í skóginum með góðri tónlist og myndavélinni minni Reyndar byrjaði göngutúrinn ansi skemmtilega með því að ég var "fundin". Ég sem sagt steig í rólegheitunum út úr bílnum og rölti eftir göngutúrnum. Þá kom að mér þessi fallegi hundur og hljóp hring í kringum mig Ég kippti mér svo sem ekki upp við það heldur rölti bara áfram og hundurinn hljóp aftur til eigandans. Ég hélt áfram að labba, en stuttu seinna kom hundurinn aftur og stoppaði hjá mér. Á eftir honum kom eigandinn sem útskýrði fyrir mér að þau væru þarna á leitaræfingu og hundurinn hefði "fundið" mig Þar sem ég hafði ekki stoppað þá fór hann auðvitað bara, sótti eigandann sinn og fann mig aftur Ég verð að viðurkenna að það var góð tilfinning að hafa verið "fundin", jafnvel þó það hafi bara verið alveg óvart (ég truflaði jú æfinguna, hann átti ekkert að finna mig)
Venju samkvæmt tók ég fullt af myndum ... setti inn á Flickrið mitt, en hér eru nokkrar skemmtilegar.
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 6. október 2008
Myndafráhvarf
Hafið þið e-a orðið háð e-u? Hafið þið e-a fundið fyrir fráhvarfseinkennum? Ég hef s.s. komist að því að ég er orðin háð ljósmyndun. Myndavélin er nánast alltaf með mér, og þegar ég gleymi henni heima þá finn ég í fúlustu alvöru fyrir óþægindum - finnst e-ð vanta Sama tilfinning blossar upp þegar langur tími er liðinn frá því að ég hef tekið myndir. Það var því mikil gleði um helgina þegar ég mundi eftir að kippa myndavélinni minni á laugardaginn og tók nokkrar myndir á leiðinni á Þingeyri Myndir sem ég verð auðvitað að deila með ykkur. Meðan ég man, takk fyrir öll fallegu kommentin ykkar á myndirnar mínar! Þau hafa verið virkilega hvetjandi
Nokkrar myndir í viðbót á myndasíðunni
Annars var síðasta vika bara vinna vinna vinna og helgin var jóga jóga jóga. Svona í stuttu máli þá vorum við að klára stórt verkefni í vinnunni í síðustu viku og því heilmikil vinna alla vikuna - sem var mjög gaman, alltaf gott að klára skemmtileg verkefni Svo skellti ég mér með Dóru Hlín á tveggja og hálfs dags jóganámskeið hjá Mörtu Ernstdóttur sem haldið var á Þingeyri. Ég hafði aldrei farið í jóga áður og mér fannst það eiginlega bara meiriháttar gaman! Ég er öll mýkri í líkamanum, mikið skárri af vöðvabólgunni, en reyndar með brjálaðar harðsperrur í maganum Planið í augnablikinu er að nota þetta námskeið sem hvatningu til að halda áfram að hreyfa mig og reyna að mæta 1-2svar í viku í jógatíma og fara í góða göngutúra þessa á milli ... sjáum til hvernig þetta á eftir að ganga
En jæja, kennslan kallar og öll vikan er framundan.
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 25. september 2008
Gott frí!
Mikið er yndislegt og algerlega nauðsynlegt að fá sér stundum pinku frí - á það við allt, líka bloggið Eins og ég kom inn á í síðasta bloggi þá er búið að vera mikið að gera hjá mér upp á síðkastið, svo mikið að ég hreinlega varð að taka mér frí frá e-u og varð bloggið ómeðvitað fyrir valinu.
Það sem er svona helst í fréttum er að ég skrapp suður í síðustu viku. Ætlaði nú bara að skjótast, suður með seinni vél og vestur aftur með seinni vél daginn eftir. En nei, e-ð voru veðurguðirnir ósáttir við það og endaði með því að ég keyrði vestur með mömmu og pabba á miðvikudagskvöldið, eftir örstutta flugferð vestur sem endaði í viðsnúningi. En ég komst þá a.m.k. heim sem var jú fyrir öllu
Á leiðinni suður voru skýin í besta skapi ... tók þessa mynd af þeim ...
Reykjavíkurferðin reyndist svo hin besta skemmtun - gisti hjá Möggu frænku og strákunum sem er alltaf gaman, fór svo og hitti prófessorana mína sem var tilgangur ferðarinnar, fór svo m.a. í IKEA með mömmu og fleira sem var ekki leiðinlegt. Já, við brunuðum svo vestur á miðvikudaginn og það er búin að vera meira og minna bara vinna síðan, kennsla og lærdómur. Eins og margir vita er ég að vinna út í Bolungarvík hjá Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands. Ég keyri því í Bolungarvík alla virka daga. Það er oft alveg virkilega tignarlegt að líta yfir Djúpið á leiðinni og stundum hreinlega "neyðist" ég til að stoppa og taka mynd ...
Fallegt ekki satt?
Hmm... hvað fleira er nú að frétta - jú, fór í þennan líka fína og blauta göngutúr með litlu systur í vikunni - það var í það blautasta í skóginum (töluverður munur frá því fyrr í sumar), en virkilega gaman enda vorum við heppnar með það að það hætti að rigna akkúrat meðan við vorum að rölta um skóginn. Það var ótrúlega gaman að sjá hvað skógurinn hafði í raun breyst við alla þessa rigningu. T.a.m. höfðu hinir furðulegustu sveppir sprottið upp út um allt ...
Verst að þessi rigning gat ekki verið duglegri við að láta sjá sig fyrr í sumar þegar allt var að skrælna En það er víst ekki á allt kosið.
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 9. september 2008
Andleysi
Já, það hefur verið almennt andleysi í gangi eftir Símamálið og Fjórðungsþingið. En það var virkilega gaman á Fjórðungsþinginu á Reykhólum um helgina, en ég fór þangað á fimmtudag og kom aftur á laugardagskvöldið. Vikan hafði þó verið töluvert strembin, og var þingið það líka, og í kjölfarið er ég eiginlega bara búin að njóta þess að hafa óvenju lítið að gera ... er s.s. bara að læra og kenna núna
Fyrir þá sem hafa áhuga á Fjórðungsþinginu og því sem þar fór bendi ég á heimasíðu Fjórðungssambands Vestfirðinga. Reykhólamenn tóku virkilega vel á móti okkur, við vorum í íþróttahúsinu og grunnskólanum og já, veðrið var yndislegt.
Það var svo bara lærdómur og kennsla sem tók við þegar heim var komið ... og já, tiltekt Hafið þið tekið eftir hvað það safnast oft mikið drasl heima hjá manni þegar maður er aldrei heima?
Annars er ósköp lítið að frétta. Er að lesa skemmtilega bók í tengslum við námið, People and places, the extrordinary geogrphies of everyday life eftir Lewis Holloway & Phil Hubbard ... Þarf að klára hana fyrir næstu viku, en ég ætla að skreppa suður í næstu viku og hitta leiðbeinendurna ... Fleira skemmtilegt að frétta, jú, eignaðist litla og rosa sæta frænku í gær 08.09.08
Já, jæja, ef ég ætla að komast heim fyrir miðnætti þarf ég að halda áfram að lesa
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 2. september 2008
Stóra flugvallarmálið
Var bent á ansi skemmtilegt blogg um Reykjavíkurflugvöll og tilfæringar á honum. Langaði að benda ykkur á að skoða það (http://margeir.blog.is/blog/margeir/entry/631736/).
Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu miklu þetta myndi breyta fyrir þá sem nota Ísafjarðarflugvöll!
Meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)